Magnúsi Hallgrímssyni kynntist ég fyrst sem eftirminnilegri sögupersónu þegar Varðeldasögur Tryggva Þorsteinssonar skátaforingja á Akureyri komu út fyrir liðlega hálfri öld síðan. Þær sögur las ég hátt sem skátaforingi fyrir unga skáta á kvöldvökum í skálaferðum. Áratugum síðar birtist hann mér ljóslifandi, bæði í skátastarfi og á vegum Rauðakrossins. Enn liðu árin og þá naut ég stuðnings hans sem framkvæmdastjóri Landverndar sem starfssömum, úrræðagóðum og ötulum lagsmanni í fagráði samtakanna. Magnús sat síðar í stjórn Landverndar frá 2007 til 2009.
Engum sem ég hef kynnst um ævina sem var Magnúsi líkur. Og mörgum mannkostum var hann búinn. Traustur og hjálpsamur liðsmaður hvert sem viðfangsefnið var. Fastur fyrir og ákveðin, jafnvel þver ef svo bar við. Minnisgóður, vel lesinn og fljótur að átta sig. Frumkvöðull í hálendis- og jöklaferðum og þekkti hvern krók og kima landsins okkar, sem kom sér vel í starfi Landverndar. Hann var einnig heimshornaflakkari og verkfræðingur sem sinnti afar krefjandi störfum í flóttamannbúðum í fjölmörgum löndum. Hann þurfti að takast á við foreldra missi ungur að árum og leggja hart að sér til að hafa í sig og á við verkfræðinámið. Allt þetta mótaði hann sem einstakan Íslending, góðan og æðrulausan skáta og náttúruverndarsinna.
Magnús var rökfastur og sannfærandi, gat verið hvatvís, og ófeiminn var hann við að láta skoðanir sínar í ljós. Umfram allt var hann fórnfús og félagslyndur. Í huganum geymi ég margar frásagnir hans af ferðum á hálendinu og um framandi lönd og af verkefnum í flóttamannabúðum. Efst eru mér í minni ferðir þar sem við fórum saman til að kynna okkur aðstæður á stöðum sem voru til umfjöllunar hjá Landvernd. Hann var í nokkrum erfiðum verkefnum helsta haldreipi mitt sem framkvæmdastjóri; ómetanleg aðstoð sem ég fæ seint full þakkað.
Landvernd kveður traustan og ráðgóðan félaga og sjálfur kveð ég skátabróður og vin. Blessuð sé minning Magnúsar Hallgrímssonar.
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar