Matarsóunarverkefni Landverndar

Matarsóun er peningasóun, landvernd.is
Landvernd hefur verið í forystu þeirra sem berjast gegn matarsóun frá því í lok árs 2013. Landvernd stýrði norræna samstarfsverkefninu Zero Waste og er í samstarfi við Reykjavíkurborg um að minnka matarsóun hjá starfsmönnum borgarinnar.

Þjóðir heims henda gríðarlegu magni af mat og eru Íslendingar þar engin undantekning. Árlega hendir hver fjölskylda mat sem samsvarar þriggja vikna launum. Margt má gera til að sporna við þessari óhugnanlegu þróun og koma í veg fyrir þessa sóun. Þriðjungur þess matar sem keyptur er inn á heimili fer beint í ruslið samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljón tonn af mat á hverju ári í heiminum.

Um verkefnið

Landvernd hefur verið í forystu þeirra sem berjast gegn matarsóun frá því í lok árs 2013. Landvernd stýrði norræna samstarfsverkefninu Zero Waste og er í samstarfi við Reykjavíkurborg um að minnka matarsóun hjá starfsmönnum borgarinnar. Að auki heldur verkefnisstjóri verkefnisins, Rannveig Magnúsdóttir, reglulega erindi um matarsóun á breiðum vettvangi, m.a. í fyrirtækjum, klúbbum, sveitarfélögum, skólum, ráðstefnum og málstofum.

Zero Waste

Matarsóunarverkefninu Zero Waste var stýrt af Landvernd og unnið í samvinnu við Kvenfélagasamband Íslands, Vakandi hreyfinguna, Stop spild af mad í Danmörku og Matvett í Noregi. Á vordögum 2014 fékk hópurinn styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og markaði það upphaf verkefnisins. Zero waste verkefnið skiptist upp í fimm verkþætti:

  • Viðburðir um matarsóun. Haustið 2014 voru haldnir tveir stórir viðburðir á vegum verkefnisins. Hátíðin „Saman gegn matarsóun“ var haldin í Hörpu í september sem hluti af „United Against Foodwaste Norden“ átakinu en viðburðir undir þessu nafni voru haldnir í öllum Norðurlöndunum árið 2014. Meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni voru Selina Juul og Tristram Stuart, sem barist hafa gegn matarsóun í heimalöndum sínum, Danmörku og Bretlandi. Þessi viðburður sameinaði, í fyrsta sinn á Íslandi, aðila frá öllum stigum framleiðslu og neyslu þar sem áhersla var lögð á vitundarvakningu og að sameinast gegn matarsóun. Til að halda umræðunni áfram stóð verkefnið, í samstarfi við Norræna húsið, fyrir málstofu þann 25. nóvember 2014. Erlendir og íslenskir fyrirlesarar ræddu lausnir á matarsóun og sögðu frá árangri sínum á því sviði. Þessir viðburðir heppnuðust afar vel og sköpuðu miklar og góðar umræður.
  • Heimildamyndin „Useless“ um matar- og tískusóun er klukkutíma löng heimildamynd þar sem Sigríður Halldórsdóttir, þáttastjórnandi, leiðir áhorfendur í gegnum gerðalag til að finna út af hverju við mannfólkið sóum svona miklu og er fókusinn settur og matar- og tískusóun. Myndin verður frumsýnd vorið 2017.
  • Rafbók um matarsóun og hvernig elda má ‘gourmet’ máltíðir úr afgöngum. Matreiðslubókina er að finna hér á heimasíðunni undir ‘Uppskriftir og myndbönd’.
  • Eldað úr öllu námskeið um eldamennsku úr afgöngum skipulögð af Kvenfélögunum og Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari, hélt 15 námskeið og ýmsa aðra viðburði sem tengdust matarsóun á Íslandi árin 2014-15. Um 300 manns tóku beinan þátt í þessum viðburðum og tveir stórir viðburðir í maí og ágúst 2015 náðu til mörg þúsund manns (sjá lista fyrir námskeið og viðburði að neðan). Dóra fékk mest af hráefninu fyrir námskeiðin hjá Frú laugu, en þetta var ýmiss matur sem var við það að renna út. Námskeiðin skiptust í tvo hluta. Fyrst hélt Dóra almenna kynningu á mat og matarsóun og af hverju það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir hana. Hún talaði um hvar matarsóun á sér stað og leiðir til að koma í veg fyrir sóun. Þátttakendur voru hvattir til að spyrja spurninga og oft mynduðust líflegar umræður. Í seinni hluta námskeiðsins var farið yfir í eldhúsið og alls konar réttir útbúnir undir handleiðslu Dóru. Oft þurfti að skipta út matvælum því réttu innihaldsefni uppskriftanna voru kannski ekki til. Með þessu móti lærðu þátttakendur að búa til nýjar uppskriftir og fá tilfinningu fyrir því hvaða matvæli henta í staðinn fyrir það sem vantar.
  • Myndbönd um matarsóun sem dreift er á netinu. Tólf stutt myndbönd með Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara voru gerð þar sem hún sýnir handbrögð í eldhúsinu sem hjálpa til við að koma í veg fyrir matarsóun. Hugmyndafræðin er svipuð og á námskeiðunum Eldað úr öllu. Þessi myndvönd voru einnig útbúin með dönskum og norskum texta og hefur verið komið í dreifingu í öllum samstarfslöndunum. Myndband var einnig gert á eyjunni Samsö í Danmörku þar sem viðtal er tekið við veitingahúsaeiganda sem gerir allt sem hún getur til að koma í veg fyrir matarsóun. Tvö jólamyndbönd voru gerð með frú Kitschfríði þar sem viðfangsefnin voru matarsóun á jólahlaðborðum og hvernig má endurnýta afgangana af jólamatnum. Frú Kitschfríður er skálduð persóna leikin af Sigríði Ástu Árnadóttur sem fer ótroðnar slóðir.

Samstarf með Reykjavíkurborg

Forrannsókn á matarsóun

Forrannsókn Landverndar á matarsóun heimila í Reykjavík bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Sú upphæð dugar fyrir einu kílói af lambakótilettum og léttu meðlæti í hverri viku. Ef dregið yrði úr matarsóun um 20% væri 1.150 tonnum minna hent af mat sem þýddi um 900 milljóna sparnað fyrir íbúa Reykjavíkur í heild sinni. Tæplega 18,5 milljóna króna sparnaður yrði vegna gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. „Slíkri upphæð væri vel varið í átak gegn matarsóun,“ segir Rannveig Magnúsdóttir verkefnastjóri á Landvernd. Rannsakendur telja matið varfærið og að matarsóun kunni að vera enn meiri, en frekari rannsóknir vanti. Landvernd vann forrannsóknina í samstarfi við Reykjavíkurborg og fyrir tilstilli verðlaunafés sem Reykjavíkurborg tók við þegar hún fékk Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Lesa meira

Átak á vinnustöðum Reykjavíkurborgar

Í framhaldi þessarar forrannsóknar héldu Landvernd og Reykjavíkurborg áfram samstarfi og réðust í átak gegn matarsóun inni á vinnustöðum borgarinnar. Ákveðið var að prufukeyra verkefnið í Ráðhúsi Reykjavíkur sem gert var í eina viku, dagana 8. – 15. desember 2016. Í þessari viku fékk starfsfólk Ráðhúss Reykjavíkur daglega fræðslu og góð ráð til að nýta mat betur. Að auki var matarsóun mæld fyrir og eftir átakið og niðurstöðurnar sýndu 14.3% minni matarsóun.

Þessi leiðarvísir, sem er hluti af Grænum Skrefum Reykjavíkurborgar, leiðbeinir vinnustöðum að keyra átak gegn matarsóun í einn dag eða heila viku. Hér er að finna ýmsar hugmyndir sem aðlaga má vinnustöðum af öllum stærðum og gerðum.

Heimasíðan matarsoun.is

Landvernd setti á laggirnar heimasíðuna matarsoun.is haustið 2014 í sambandi við Zero Waste verkefnið og samstarf við Reykjavíkurborg um minnkun á matarsóun. Á þessum tíma var Landvernd með fulltrúa í starfshópi umhverfis- og auðlindaráðuneytis um matarsóun sem skilaði af sér skýrslunni Matarsóun- tillögur til úrbótaí apríl 2015. Þessi starfshópur heldur áfram óformlegu starfi og fundar reglulega ásamt fleiri aðilum sem beðnir voru um að taka þátt. Ákveðið var að rekstur heimasíðunnar matarsoun.is færðist yfir til Umhverfisstofunar en allir samstarfsaðilar taka þátt í að koma inn efni á síðuna, ásamt facebook síðu sem er mjög lifandi. Markmið síðunnar er að halda utan um allt sem er að gerast í baráttunni gegn matarsóun á Íslandi og þarna er að finna góð ráð gegn matarsóun, myndbönd, uppskriftir, skammtareiknivél, fróðleik um matarsóun og fréttir.

Samstarfsaðilar: Umhverfisstofnun, Bændasamtök Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Landvernd, Landspítalinn, Matvælastofnun, Samband íslenskra sveitafélaga, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Vakandi, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Reykjavíkurborg

Námsefni um matarsóun

Námsefni

Unnið er að gerð námsefnis um matarsóun sem verður aðgengilegt hér vorið 2019.

5.800 tonnum

af mat og drykk er hent árlega af reykvískum heimilum.

4,5 milljarðar

Árlega henda Reykvíkingar mat að andvirði 4,5 milljarða króna.

Matarsóun

er stórt og viðamikið alþjóðlegt vandamál sem ógnar fæðuöryggi til framtíðar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd