Yfirlýsing stjórnar Landverndar
Stjórn Landverndar harmar þá ákvörðun umhverfisráðuneytisins að fallast á
úrskurð um mat á umhverfisáhrifum áformaðrar rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði. Stjórnin telur að rík ástæða sé til að koma í veg fyrir þá mengun sem fylgir starfsemi af þessu tagi. Það hljóti að vera eðlileg krafa að farið sé eftir gildandi viðmiðunarmörkun um mengun og ef þau eru ekki fyrir hendi þá jafngildi það því að starfsemi sé ekki heimil.
Í september 2004 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrif rafskautaverksmiðju í Hvalfirði væru ekki umtalsverð. Stjórn Landverndar kynnti sér málið og komst að þeirri niðurstöðu að mikil óvissa væri um hvað væru ásættanleg viðmiðunarmörk fyrir mengun vegna fjölhringa arómatískra kolvatnsefna, svonefndra PAH-efna frá rafskauta-verksmiðjunni. PAH-efnin eru talin afar heilsuspillandi. Verksmiðjan mun einnig losa afar mikið af brennisteinsefnum.
Hér á landi eru ekki í gildi neinar viðmiðunarreglur um PAH-efni. Því ákvað stjórnin að kæra úrskurðinn til umhverfisráðherra. Að mati stjórnar Landverndar segir varúðarreglan að ef ekki liggur fyrir vísindaleg fullvissa um að áformaðar framkvæmdir valdi ekki alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, þá beri að hafna þeim. Þar sem ekki liggur fyrir vísindaleg fullvissa um að tilgreind rafskautaverksmiðja valdi ekki alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, þá ber að hafna henni.
Stjórn Landverndar vill benda á að verið er að þróa nýja gerð óbrennanlegra rafskauta sem munu hafa í för með sér verulega minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu á áli. Þessi tækni ætti að komast í gagnið innan fárra ára. Það er því tímaskekkja að reisa verksmiðju sem framleiðir rafskaut samkvæmt hefðbundnum aðferðum.
Umhverfisráðuneytið sendi málið til umsagnar fjölmargra aðila. Í umsögnum er að finna stuðning við málflutning Landverndar. M.a. segir í umsögn Veiðimálastofnunar að tekið sé undir áhyggjur kæranda og gagnrýni þeirra á skort á skýrum viðmiðun um hættugildi PAH-efna þar sem umrædd efni munu berast í vatn. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands er tekið undir sjónarmið um nauðsyn þess að fyrir liggi reglugerð um loftmengun í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Stjórn Landverndar tekur undir þá afstöðu Reykjavíkurborgar að betri upplýsingar um hugsanlega dreifingu allra viðkomandi mengunarefna þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um starfsleyfi.
Almennt virðast flestir umsagnaraðilar taka undir þá megin forsendu kæru Landverndar að setja þurfi íslenskar reglur um viðmiðunarmörk fyrir styrk PAH-efna. Að mati stjórnar Landverndar er það algjörlega óviðunandi að miða við erlendar reglur, eins og stjórnvöld hafa gert í þessu máli, þegar í hlut eiga svo hættuleg mengunarefni. Íslenskt veðurfar, jarðvegur og lífríki er á margan hátt einstakt og því er nauðsynleg að rannsaka hvernig umhverfið bregst við PAH-mengun áður en settar verða viðmiðunarreglur fyrir Ísland. Fram að því verður náttúran að njóta vafans og ekki er ráðlegt að heimila framkvæmdir og starfsemi sem valdið getur PAH-mengun þar til að þetta liggur fyrir. Stjórnin hvetur því viðkomandi aðila til að hafna umsóknum um starfsleyfi fyrir verksmiðjuna.
Samþykkt á stjórnarfundi 7. apríl 2005