Landvernd býður öllum félagsmönnum og áhugafólki um vernd hálendisins í kaffispjall og myndasýningu á Austurvelli í dag, miðvikudag 29. janúar, milli kl. 18 og 19.
Þingmönnum hefur verið boðið að koma og ræða við okkur um þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á hálendinu og þá sýn Landverndar að ekki beri að fórna fleiri náttúruperlum á svæðinu, heldur að vernda það gegn umræddum framkvæmdum.
Uppi eru hugmyndir um vel á annan tug virkjana með tilheyrandi háspennulínum, uppbyggða vegi um Kjöl og Sprengisand, að ógleymdri stórri háspennulínu yfir Sprengisand. Framkvæmdirnar, ef fram ná að ganga, munu eyðileggja hálendið í þeirri mynd sem við þekkjum það.
Í september í fyrra hóf Landvernd sérstakt baráttuverkefni til varnar hálendi Íslands sem ber heitið: Hálendið – hjarta landsins. Þessi viðburður er hluti af því verkefni. Á vefsíðunum www.hjartalandsins.is og http://heartoficeland.org er umfjöllun um fyrirhugaðar framkvæmdir á hálendinu og gefst fólki kostur á að skrifa undir þá kröfu Landverndar að hlífa hálendi Íslands.
Verið öll velkomin í dag á Austurvöll í Reykjavík.
Með góðum kveðjum,
stjórn og starfsfólk Landverndar.