Náttúran fyrir manninn – eða hvað?

Það er skylda okkar að ganga um náttúruna eins og forfeður okkar gerðu. Fara hljóðlega, stíga hvert skref af virðingu og loka dyrunum varlega þegar við förum. Ljósmynd af Flateyjardal: Rafn Sigurbjörnsson.
„Að erlendir aðilar, horfi til eyjunnar okkar með græðgisglampa í augum, sem einhvers hóls sem hægt væri að sækja endalausa græna orku til, er martröð í mínum augum."

Ímyndaðu þér skip. Það er stórt og glæsilegt, fullbúið öllu því sem
hugurinn girnist. Það siglir stolt og hnarreist um ókunn höf. Skipið er heimili okkar. Hérna búum við. Forfeður okkar læddust um lestar skipsins og skelltu hljóðlega í lás þegar þau kvöddu. Með hverri kynslóðinni sem leit lífsins dag á skipinu, varð skarkalinn meiri. Þilförin skítugri.

Síðan fórum við að bora lítil göt á skipsskrokkinn. Örsmá í fyrstu, en stærri eftir því sem nútíminn færðist nær. Stundum stækkuðu götin sjálf, eftir að þau voru gerð. Sjórinn lak inn. Stundum fossaði. Skipið þyngdist og brakaði í.

Við vorum hætt að ganga af virðingu og varkárni um skipið sem gaf okkur líf og hélt okkur á floti. Þau örfáu sem stóðu á bókastöflum á þilfarinu og reyndu af veikum mætti að vekja athygli hinna farþeganna á ástandi skipsins voru orðin þreytt og afskipt. Farþegarnir voru uppteknir og eru það enn í dag. Þeir fá ennþá ágætis þjónustu á dekkinu og hafa ekki blotnað í fæturna hingað til.

Við sem stöndum vörð um náttúru Íslands erum ekki mörg. Á Íslandi ríkir velmegun og við erum svo heppin að eiga fullt af landsvæði sem hægt væri að nýta til orkuframleiðslu. Orkuna gætum við selt innanlands til þess að framleiða ál, knýja risavaxnar skemmur fullar af tölvum, grafa eftir rafmynt eða hvað sem er. Tekjumöguleikarnir eru endalausir. Landið er endalaust. Jafnvel gætum við selt orkuna okkar úr landi, þangað sem ekki er jafn auðvelt að búa til endurnýjanlega orku. Þá fyrst færum við að mala gull.

En er landið okkar endalaus uppspretta orku? Eru víðernin í raun og veru okkar? Höfum við leyfi til þess að raska þeim? Eða ætlum við að halda áfram að bora lítil göt á skrokkinn þangað til við vöknum einn daginn og þekkjum landið okkar ekki lengur?

Ég man hvar ég var þegar Jökulsá á Fjöllum var friðuð. Ég var í Danmörku og mér vöknaði um augu. Skyndilega var ég aftur stödd í voldugri návist Dettifoss og við fögnuðum saman. Ég gekk um Jökulsárgljúfur, Hólmatungur og flaug svo sem leið lá niður í Öxarfjörð. Þar hóf ég mig á loft, hátt upp og sá yfir þetta magnaða vatnsfall, alla leið upp á hálendi og fann fyrir gríðarlegum létti. Nú er búið að afturkalla þessa friðun. Landeigendur, sem ætluðu sér að selja land undir virkjun á vatnasviði Jöklu, kærðu friðunina og fengu sínu fram.

Ég er formaður í SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi. Einna efst á baugi hjá okkur síðustu árin hefur verið að standa vörð um Skjálfandafljót. Í okkar allra viltustu draumum væri það friðað, en eftir afturköllunina á friðun Jöklu, er það augljóst mál að ekkert er öruggt í þeim efnum. Mikil umræða hefur skapast í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um Einbúavirkjun í Bárðardal. Virkjun sem er rétt undir 10 MW lágmarksframleiðslu rammaáætlunar og fellur því ekki undir þau lög, en fór í umhverfismat engu að síður að ósk sveitarfélagsins. Umhverfismat kom ekki vel út, meðal annars segir þar að virkjunin muni hafa áhrif á fljótið allt frá virkjun til ósa. Staðsetning hennar er u.þ.b. 6 km fyrir ofan Goðafoss. Sú virkjun er ekki á nýju aðalskipulagi Þingeyjarsveitar, en  framkvæmdaaðilinn er ekki af baki dottinn og lét gera könnun í Bárðardal og nærsveitum þar sem viðhorf fólks til virkjunarinnar er metið. Margir í sveitinni vilja fá þessa virkjun, segja að það myndi hafa jákvæð áhrif á sveitina. 

Ég spyr mig oft, sem náttúruverndarsinni, hver réttur náttúrunnar sé? Við segjum gjarnan, að land sem við höfum keypt með peningum, sé okkar land. Okkar eign og okkar réttur til að nýta eins og okkur sýnist. Að áin sem rennur meðfram landinu okkar sé okkar á. En þú getur ekki átt rennandi vatn. Það á sér sitt eigið líf og hringrás sem hefur ekkert með mennina að gera. Ég trúi því að okkar skylda sé að ganga um náttúruna eins og forfeður okkar gengu um skipið. Fara hljóðlega, stíga hvert skref af virðingu og loka dyrunum varlega þegar við förum.

Það ætti ekki að geta verið einkaframtak að framleiða endurnýjanlega orku til þess að selja eins og hvert annað hrossastóð. Íslenska ríkið á að sjá um auðlindir landsins á ábyrgan hátt. Það þarf að horfa til almannahagsmuna og forðast það að láta þrönga einkahagsmuni ráða för. Að erlendir aðilar, til að mynda, horfi til eyjunnar okkar með græðgisglampa í augum, sem einhvers hóls sem hægt væri að sækja endalausa græna orku til, er martröð í mínum augum.

Það eru engin önnur skip sjáanleg á sjóndeildarhringnum. Við stökkvum ekki frá borði og skemmum nýtt skip annars staðar. Þegar öllu er svo á botninn hvolft áttum við skipið aldrei til að byrja með. Það á okkur. 

Greinin birtist fyrst í ársriti Landverndar 2023 – 2024

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd