A) Ályktun um áskoranir í náttúruvernd á komandi árum:
Náttúruvernd á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum áskorunum til komandi ára. Náttúruverndarþing 2023 tók þetta sérstaklega til umræðu með næstu 30 ár í huga og listar upp eftirfarandi:
- Tilraunir samfélagsins til þess að bæta ráð sitt í loftslagsmálum á kostnað náttúrulegra verðmæta eins og líffræðilegrar- og jarðfræðilegrar fjölbreytni.
- Það er ekkert grænt við orku sem búin er til á kostnað náttúrulegra verðmæta, hún er í besta falli endurnýjanleg. Með sölu á upprunavottun tökum við enn fremur þátt í grænþvotti á orku á alþjóðlegum skala.
- Stjórnmálafólk er hrætt við að taka óvinsælar ákvarðanir og hafa því nánast einungis ráðist í aðgerðir með hvötum sem efla þá frekar vöxt heldur en draga úr neikvæðum áhrifum á náttúru.
- Í núverandi hagkerfi borgar ekki sá sem mengar.
- Lausnir sem miða að því að dæla niður eða binda með öðrum hætti kolefni, svo sem skógrækt, fá of mikla athygli og hætt er við að það notist sem syndaaflausn.
- Skautun á sér stað í samfélaginu þar sem loftslagumræðu er oft stillt upp á móti náttúruvernd.
- Þörf er á skýrari stefnu í landnýtingu.
- Endurheimt votlendis þarfnast mikillar innspýtingar.
- Sjórinn og sjávarbotninn eru almenningi óaðgengilegir og því erfiðara að fylgjast með og eiga upplýsta umræðu um hvað á sér stað þar.
- Ísland hefur samþykkt á alþjóðlegum vettvangi að friða 30% sjávar innan íslenskrar lögsögu.
- Þau öfl sem vilja ráðast í framkvæmdir sem hafa neikvæð áhrif á lífríki eru mjög sterk af aðföngum svo sem peningum og mannskap og því er þrautseigja ein af helstu áskorunum náttúruverndar til framtíðar.
- Mikill ágangur ferðamanna og óheft flæði þeirra til landsins hefur neikvæð áhrif á íslenska náttúru.
B) Ályktun um stuðning við náttúruvernd til framtíðar:
Náttúruverndarþing 2023 tók til umræðu hvernig styrkja mætti náttúruvernd á Íslandi til framtíðar og hafði þar til viðmiðunar næstu 30 ár. Margt kom til tals en einna helst:
- Náttúruvernd hafi skýran málsvara á Alþingi og innan sveitarstjórna
- Umhverfis- og orkumál falli ekki undir sama ráðuneytið heldur sé starfrækt öflug náttúruvernd innan umhverfisráðuneytisins
- Náttúruverndarnefndir sveitarfélagana fái meiri leiðsögn og aðhald frá Umhverfisstofnun.
- Lagalegur réttur náttúrunnar sé efldur og náttúruverndarsamtök fái aukið umboð til þess að sækja mál fyrir hönd hennar.
- Dregið verði úr upplýsingaóreiðu með fræðslu til skólabarna, háskólanema, fjölmiðlafólks, þingmanna, sveitarstjórna sem og almennings.
- Þannig sé dregið úr skautun í samfélaginu.
- Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og gott betur um 30% verndun svæða á landi og hafi fyrir árið 2030.
- Innleitt sé stjórnarskrárákvæði þess efnis að náttúruauðlindir lands og sjávar séu þjóðareign og ágóði af nýtingu þeirra skili sér til samfélagsins.
- Mengunarbótarreglan sé innleidd hvað varðar alla mengun, þar með talið losun gróðurhúsalofttegunda yfir ákveðnu marki.
- Efla skal rannsóknir á íslenskri náttúru og vistkerfum.
- Friðun hálendisins sé fest í lög, hvort sem það er sem þjóðgarður, friðland eða annað sem kemur í veg fyrir að sérstaða þess sem óbyggt land sé skert.
- Hér verði innleitt öflugt hringrásarhagkerfi.
C) Ályktun um náttúruna:
Náttúran er ekki vél eða tæki sem við getum reiknað og skilið til fullnustu. Verðmæti hennar er ómetanlegt en allt líf byggir á því að til staðar sé heilnæmt umhverfi og heilbrigð vistkerfi. Allt í lífi okkar og samfélagi skal miða að því að ná samræmi við náttúruna en ekki ganga sífellt á hana. Þar sem núverandi efnahagskerfi nær því ekki þurfum við að sýna hugrekki og endurhugsa það frá grunni.