EFTA-dómstóllinn hefur með ráðgefandi áliti, hafnað túlkun norska ríkisins á hugtakinu „brýnir almannahagsmunir“ í skilningi vatnatilskipunar Evrópuþingsins. Álitið var kveðið upp í gær, miðvikudaginn 5. mars. Til að raska eða umturna með afdrifaríkum afleiðingum vatnsauðlindinni og umgjörð vatns þarf sérstaka undanþágu frá vatnatilskipuninni og réttlæta þarf hana með vísun til „brýnna almannahagsmuna.“ Vatnatilskipunin hefur verið innleidd í lög bæði í Noregi og á Íslandi með lögum um stjórn vatnamála. Þessi niðurstaða dómstólsins hefur áhrif á öllu EES svæðinu og þar með á Íslandi.
Hreinar efnahagslegar ástæður ekki brýnir almannahagsmunir
Niðurstaða dómstólsins er að „hreinar efnahagslegar ástæður, svo sem efling þjóðarbús,“ teldust ekki réttlætingar í skilningi tilskipunarinnar sem brýnir almannahagsmunir. Jafnframt segir í áliti dómsins „að fjármagnstekjur, laun eða hagnaður af skattheimtu teldist ekki til brýnna almannahagsmuna.“
Bendir dómstóllinn um leið á að meta „þarf í hverju tilviki fyrir sig hvaða þættir skipta máli þegar ákvarða þarf hvort brýnir almannahagsmunir séu til staðar.“
Tilefni álits EFTA-dómstólsins er mál sem rekið er fyrir áfrýjunardómstóli í Noregi. Í því halda náttúruverndarsamtökin Naturvernforbundet og Natur og Ungdom því fram að leyfi, sem norsk stjórnvöld veittu til námuvinnslu og förgunar námuúrgangs í Førdefjord, sé ólögmætt þar sem það standist ekki kröfur vatnatilskipunarinnar. Norska ríkið heldur því hins vegar fram að leyfið sé réttlætanlegt á grundvelli undantekningarreglunnar um „brýna almannahagsmuni“, með skírskotun til efnahagslegs ávinnings, aukinnar atvinnusköpunar og nauðsynjar þess að tryggður sé aðgangur að mikilvægum jarðefnum. Því hafnar EFTA-dómstóllinn.
Álit dómstólsins afgerandi
„Við teljum að með þessu skýra áliti EFTA-dómstólsins sé grundvöllur frumvarps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hruninn um að virkjanaflokkur rammaáætlunar ráði úrslitum um hvaða virkjanakostir eigi að teljast til brýnna almannahagsmuna. Álit dómstólsins er afgerandi, það verður að leggja mat á hvern virkjanakost fyrir sig,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, formaður Náttúrugriða.