Nýársboð Landverndar var haldið í Flyover Iceland og var óvenju fjölmennt enda skemmtilegt að komast á flug til að upplifa íslenska náttúru innanhúss í viðbót við skemmtilegar umræður um náttúruvernd. Eins og árið sem við erum að kveðja var þessi viðburður sannarlega athyglisverður. Hugmyndin var að Flyover Iceland og Landvernd myndu í sameiningu færa fólk nær náttúrunni í skammdeginu og það tókst vel. Landvernd vinnur að því að vernda alla þá gullfallegu staði sem flughermirinn flýgur yfir og því tilvalið að bjóða félögum Landverndar í slíka veislu.
Formaður Landverndar sagði í erindi sínu:
“Við bendum á að tíðarandinn í samfélaginu breytist hratt en þegar á tímum sem þessum, þar sem stórframkvæmdir virðast óteljandi, verða afleiðingar af því sem gerist í dag ekki aftur teknar um ósnortna náttúru. Með aðhaldshlutverkinu gefum við hinni raddlausu náttúru rödd. Við lyftum því sem vel er gert og bendum á það sem betur mætti fara.”
Margt er framundan á hjá Landvernd í vor, viðburðir og örugglega líka átök í náttúruvernd. Alla daga stöndum við vaktina og reynum að uppfylla eftir bestu getu óskir félaga sem vilja aðstoða við að vernda náttúru Íslands.
Framundan
Stærsti viðburðurinn framundan er Græn ganga í þágu náttúrunnar og náttúruverndar á sumardaginn fyrsta 23. apríl. Þá tökum við höndum saman og minnum alla landsmenn á náttúru Íslands og mikilvægi þess að hafa hana alltaf í huga þegar ákvarðanir eru teknar. Óskandi er að þúsundir fylki liði í þágu náttúrunnar með græn flögg á sumardaginn fyrsta og fagni sumri íslenskrar náttúru saman.
Fraumundan eru líka málþing, fundir og félagakvöld sem enginn náttúruverndari ætti að láta framhjá sér fara. Ekki má heldur gleyma gönguferðum Landverndar. Í Reykjanesfólkvangi verður fræðsluátak og nokkrar fræðslugöngur í samvinnu við Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands til þess að kynna þá náttúruperlu í anddyri borgarinnar sem þetta svæði er. En það er undir álagi núna bæði vegna stórframkvæmda og umgengni þar sem ekki er skeytt um náttúruna.
‚Á nýársgleði Landverndar voru sérstakar þakkir færðar Oddi Sigurðssyni, Plastlausum september, Ferðafélagi íslands, fjölskyldu Einars Ragnars Sigurðssonar fararstjóra, íbúasamtökum Mosfellsbæjar og fjölmörgum einstaklingum fyrir fjárstuðning, marga og góða styrki á nýliðnu ári, sem koma sér einstaklega vel í náttúruverndarvinnu Landverndar á þessu ári. Oddur sem nýlega hlaut náttúruverndarverðlaun Sigríðar í Brattholti hélt frábæra ræðu til stuðnings íslenskri náttúru í nýársboðinu og var honum vel fagnað.
Við þökkum ykkur öllum fyrir samfylgdina á liðnu ári og hlökkum til að sjá ykkur sem flest í náttúruverndarbaráttunni 2026



