Verkefnið Öndum léttar

Öndum léttar er loftslagsverkefni Landverndar, landvernd.is
Loftslagsverkefni Landverndar leiðbeinir sveitarfélögum um gerð kolefnisbókhalds og aðgerðaráætlunar um loftslagsmál.

Landvernd veitir fræðslu um loftslagsmál og aðstoða rsveitarfélög og skóla að draga úr útlosun gróðurhúsalofttegunda.  

Handbók verkefnisins

Loftslagsmál

Loftslagsbreytingar eru óumdeilanlega brýnasta umhverfisvandamál jarðarinnar í dag. „Algjört hrun siðmenningar er við sjóndeildarhringinn og loftslagsbreytingar af mannavöldum geta leitt til meiriháttar náttúruhamfara og gereyðingu stórs hluta náttúrunnar.“ Þetta sagði David Attenborough á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem sett var í Póllandi í byrjun desember 2018. Það skiptir ekki máli hvort litið er til sjávar, ferskvatns eða landsvæða, alls staðar blasir við gjöreyðilegging ef ekki verður spornað gegn loftslagsbreytingum. Ísland er ein neyslufrekasta þjóð í heimi með tilheyrandi kolefnisspori og því ljóst að þrátt fyrir smæð okkar þá þurfum við að endurskoða gildi og hegðun okkar eins og aðrar þjóðir ef við viljum eiga von um að afkomendur okkar muni eiga lífvænlega framtíð á þessari jörð. Þetta þýðir algjöra uppstokkun á því hvernig við borðum, klæðum okkur, ferðumst, rekum fyrirtæki, byggjum hús, skipuleggjum borgir og nýtum landið.

Það er fagnaðarefni að íslensk stjórnvöld hafi loksins, árið 2018, sett fram fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem á einnig að vera í stöðugri þróun og í góðu samráði við almenning. Í gegnum þetta samráð hefur mikið af þörfum ábendingum borist og Ísland hefur hér tækifæri til að verða fyrirmynd annarra þjóða í loftslagsmálum. Það hefur aldrei verið jafn mikið í húfi áður.

Í desember 2018 var 24. ráðstefna aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna haldin í Póllandi. Ráðstefnan er haldin í skugga þess hve lítill árangur hefur náðst í loftslagsmálum. Hver alþjóðaskýrslan á fætur annarri varar við enn alvarlegri og hraðari áhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið á vistkerfi, samfélög og hagkerfi en áður var talið. Í árlegri stöðuskýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í heiminum, sem er nýkomin út, kemur fram að ríki heims hafi aldrei átt jafn langt í land með að uppfylla markmið sín í loftslagsmálum. Í skýrslunni kemur fram að ríki heims þurfi að spýta hressilega í lófana og minnka kolefnislosun sína fimmfalt meira en miðað er við í núverandi áætlunum, til að hægt verði að halda hækkun meðalhitastigs á jörðinni innan við 1,5 gráður. Til að ná markmiðum Parísarsáttmálans er ljóst að þörf er á miklu breiðri samstöðu milli stjórnvalda, sveitarfélaga, náttúru- og umhverfisverndarsamtaka, fyrirtækja og almennings.

Afar fá sveitarfélög hafa sett sér stefnu í loftslagsmálum. Reykjavíkurborg er þar ánægjuleg undantekning (Reykjavíkurborg 2016) ásamt því sem Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að bæjarfélagið setji sér mælanleg markmið í loftslagsmálum og samþykki í kjölfarið aðgerðaáætlun og áætlun um eftirfylgni. Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og Hveragerðisbær hafa skrifað undir sáttmála borgarstjóra um loftslagsmál og Sveitarfélagið Hornafjörður og Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hafa nú bæst í hóp íslenskra sveitarfélaga sem setja sér stefnu í loftslagsmálum. Það er því mikil þörf á aukinni aðkomu og vinnu sveitarfélaga að loftslagsmálum.

Um verkefnið

Verkefnið Öndum léttar (hét áður Loftslagsverkefni Landverndar) hefur hingað til einskorðast við vinnu með sveitarfélögum, þar sem aðstoð var veitt við öflun grunnlínugagna fyrir kolefnisbókhald, markmiðasetningu og gerð aðgerðaáætlunar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Unnið var með sveitarfélaginu Hornafirði og sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Verkefnið var byggt á Klima Kommuner verkefni dönsku náttúruverndarsamtakanna.

Á árinu 2018 fór Landvernd í samstarf við hugbúnaðarhúsið Klappir – Grænar lausnir hf. sem hefur þróað hugbúnað til umhverfisstjórnunar. Hjá Klöppum er stafræn tækni og miðlun gagna nýtt til að auðvelda mælingar á kolefnisspori. Klappir Core hugbúnaðurinn gerir notendum kleift að halda utan um umhverfismál sín með einföldum og sjálfvirkum hætti, setja sér markmið og fylgjast með árangri. Klappir eru í samstarfi við fjölda fyrirtækja og gagnalindir (sjá lista yfir samstarfsaðila á klappir.is) sem streyma gögnum sínum inn í hugbúnaðinn Klappir Core. Hugbúnaðurinn safnar gögnum um m.a. eldsneyti (eigin bíla og bílaleigubíla), flug, losun úrgangs, rafmagsnotkun og heitavatnsnotkun á sjálfvirkan hátt þannig að notendur fá yfirlit yfir stöðuna og geta borið saman ár eða mánuði, mismunandi veitur, mismunandi farartæki, eignir og fleira.

Samstarf við sveitarfélög

Sveitarfélög sem eru með samning við Klappir fá aðgang að Klappir Core hugbúnaðinum sem gerir þeim kleift að halda utan um umhverfismál sín með einföldum og sjálfvirkum hætti, setja sér markmið og fylgjast með árangri. Sveitafélög geta nú óskað eftir þátttöku í verkefninu og munu Landvernd og Klappir kynna þeim aðferðir við umhverfisstjórnun og aðstoða þau við að setja fram aðgerðaáætlun til að draga markvisst úr kolefnislosun. Sveitarfélög munu að öllum líkindum ná fram sparnaði fyrstu árin með því að setja upp kolefnisbókhald.

Samstarf með skólum

Félagasamtök hafa unnið öflugt starf í umhverfismennt og fræðslu í skólum landsins. Landvernd hafa verið leiðandi samtök í þessum efnum ekki síst í gegnum verkefnið Skólar á grænni grein (Grænfáninn) en hlutverk þess er að efla sjálfbærnimenntun og umhverfismennt á öllum skólastigum. Stefnt er að því að efla enn frekar þekkingu á málefninu innan skóla og auka hæfni og getu nemenda og kennara til aðgerða í þessum málum. Í verkáætlun Öndum léttar eru þrjú ný verkefni sem unnin verða í skólum landsins þar sem nemendur fá fræðslu um loftslagsmálin ásamt tækjum og tólum í hendurnar sem þau geta nýtt til aðgerða í skólanum og nærumhverfi sínu.

Markmið

Markmið Öndum léttar eru að:

  1. starfa með fyrirtækinu Klappir – Grænar lausnir hf. þar sem stafræn tækni og miðlun gagna er nýtt til að auðvelda mælingar á kolefnisspori. Klappir er hugbúnaðarhús sem hefur þróað hugbúnað til umhverfisstjórnunar.
  2. aðstoða þau sveitarfélög sem eru í samstarfi við Klappir – Grænar lausnir hf. Með Klappir Core búnaðinum er sveitarfélögum gert kleift að halda utan um umhverfismál sín með einföldum og sjálfvirkum hætti, setja sér markmið og fylgjast með árangri. Sveitafélög geta nú óskað eftir þátttöku í verkefninu og munu Landvernd og Klappir kynna þeim aðferðir við umhverfisstjórnun og aðstoða þau við að draga úr kolefnislosun. Landvernd og Klappir aðstoða við gerð kolefnisbókhalds, markmiðasetningu og gerð aðgerðaáætlunar. Að auki er þekkingu um loftslagsmál komið til íbúa ásamt hvatningu til þátttöku í aðgerðum. Þáttur Landverndar mun að mestu snúa að fræðslu og að finna leiðir til að draga úr losun í stað þess að reikna út kolefnisspor sveitarfélaga eins og áður var.
  3. auka læsi nemenda á bein áhrif sín—bæði neikvæð og jákvæð—á loftslagið með með því að veita þeim aðgang að raungögnum um umhverfisáhrif skólanna, verkefnavinnu og aðgerðum í skólum um loftslagsmál.  Landvernd og Klappir hafa áhuga á að tengja saman fræðslu í skólum um loftslagsmál og mat skólanna á losun sinni.
  4. koma fræðslu um loftslagsmál til almennings og fyrirtækja með m.a. vinnustofum, myndböndum og í gegnum samfélagsmiðla. Lögð verður áhersla á lausnir og þátttöku í aðgerðum og þá hugarfarsbreytingu sem þarf að eiga sér stað til þess að við getum náð árangri í loftslagsmálum.

Samstarfsaðilar

  • Klappir – Grænar lausnir hf.

  • Sveitarfélagið Fljótsdalshérað
  • Samband íslenskra sveitarfélaga

Upplýsingar til sveitarfélaga

Hlutverk Landverndar

Hlutverk Landverndar Í verkefninu er gert ráð fyrir að starfsmenn Landverndar og Klappa aðstoði starfsfólk sveitarfélaga við undirbúningsvinnu sem þarf til að útbúa kolefnisbókhald og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem sveitarfélagið hrindir svo í framkvæmd. Þegar Landvernd verður farin að vinna með fleiri sveitarfélögum að verkefninu safnast þannig saman afar verðmæt reynsla á einn stað, hjá Landvernd, sem nýst getur fleiri sveitarfélögum.

Hlutverk sveitarfélaga

Sveitarfélög í verkefninu útnefna starfsmann sem, í samstarfi við Landvernd og Klappir, safnar grunngögnum í þremur geirum er koma að sveitarfélaginu sem einingu; samgöngum, orkumálum og úrgangi. Starfsmaður sveitarfélagsins, í samstarfi við Landvernd og bæjarstjórn, útbýr aðgerðaáætlun sem sveitarfélagið ber ábyrgð á að sé framfylgt og að settum markmiðum verið náð.

Fjármögnun

Verkefnið var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Útgáfa

Handbókin Öndum léttar gagnast sveitarfélögum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Kolefnisbókhald – fyrir sveitarfélög – EXEL skjal.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd