Orð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra afar ámælisverð og alvarleg – Fréttatilkynning

Í Þjórsá eru fallegar flúðir og eyjar, þ.á.m. Hagaey sem fer undir lón Hvammsvirkjunar, ef af verður. Ljósmynd: Björg Eva Erlendsdóttir
Landsmenn þurfa að geta leitað réttar síns óáreittir og er sá réttur tryggður með lögum.

Ellefu landeigendur á bökkum Þjórsár leituðu nýverið til dómstóla á grundvelli eignarréttar síns, sem nýtur verndar stjórnarskrár, til þess að freista þess að fá ógiltar umdeildar ákvarðanir Umhverfisstofnunar og Fiskistofu um Hvammsvirkjun. Landeigendurnir telja ákvarðanirnar ekki samrýmast lögum. Neðangreind samtök lýsa yfir fullum stuðningi við málshöfðun landeigendanna.

Í kvöldfréttum sjónvarps þann 30. apríl síðastliðinn sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, höfðun málsins „vonbrigði“ og í orðum ráðherra í fréttinni komu fram alvarlegar ásakanir um að málarekstur landeigenda gangi gegn þjóðarhag.

Ísland fullgilti hinn svo kallaða Árósasamning fyrir 13 árum. Í honum felst að ríki skulu tryggja einstaklingum og samtökum þeirra greiðan aðgang að dómstólum og kærustjórnvöldum um mál sem varða stórfelld áhrif á umhverfið og brot á landslögum. Þannig hafa landeigendur við Þjórsá líkt og allir aðrir landsmenn lögbundinn rétt til að hafa áhrif í málum sem varða umhverfið, hvort sem er með því að fá upplýsingar, gera athugasemdir eða leita endurskoðunar ákvarðana sem þau telja fara í bága við lög.

Í skilningi Árósasamningsins ber íslenska ríkinu að sjá til þess að þau sem nýta þennan lögbundna rétt sinn verði ekki fyrir áreiti eða ofsóknum vegna þessa (sjá 8. mgr. 3.gr. í samningnum: https://www.althingi.is/altext/139/s/1195.html). Landsmenn þurfa að geta leitað réttar síns óáreittir og er sá réttur tryggður með lögum.

Í ljósi þessa stjórnarskrárvarða réttar landeigendanna og skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur undirgengist að alþjóðalögum fordæma umhverfisverndarsamtökin ummæli ráðherra í umræddri frétt. Ummælin vega gróflega að lögbundnum þátttökurétti almennings og virðir ráðherra að vettugi þær skyldur sem íslenska ríkið hefur gagnvart almenningi í slíkum málum.

Þar að auki er fáheyrt að ráðherra, hér umhverfis-, orku- og loftslagsmála, geri sig vanhæfan með því að tjá sig fyrirfram um umdeilda ákvörðun undirstofnunar ráðuneytisins, á meðan kærufrestur stendur enn yfir, og sem mál er að auki rekið um fyrir dómstólum.

Landvernd
Náttúrugrið
Náttúruverndarsamtök Íslands
Verndarsjóður Villtra Laxastofna (NASF)

Ofangreind fréttatilkynning var send fjölmiðlum 6. maí 2024. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd