Pokastöðin er samfélagsverkefni sem snýst um að búa til hringrás taupoka í samfélaginu. Verkefnið hófst á Hornafirði á vormánuðum 2016 og er í dag hluti af alþjóðlegu verkefni sem heitir Boomerang Bags sem á uppruna sinn í Ástralíu.
Verkefnið gengur út á að koma upp pokastöðvum í verslunum þar sem fólk getur fengið lánaða fjölnota poka, í stað þess að kaupa plastpoka, þegar það verslar. Í næstu verslunarferð er svo hægt að skila þessum pokum aftur í pokastöðina. Margar verslanir eru farnar að selja fjölnota poka en það er ansi dýrt að þurfa að kaupa sér slíka poka í hvert sinn sem maður gleymir fjölnotapokanum heima eða í bílnum. Þá er gott að geta gripið í pokastöðina og fengið lánaðan poka.
Sjálfboðaliðar sjá um að framleiða pokana fyrir pokastöðvarnar og oftar en ekki er verið að endurnýta gamalt efni, t.d. boli, sængurver og fleira.
Landvernd fagnar þessu framtaki og vonast til þess að sjá pokastöðvar í öllum verslunum landsins í framtíðinni.
Viltu setja af stað Pokastöð í þínu samfélagi? Hafðu samband við Guðrúnu Sturlaugsdóttur í netfangið gudrun [hjá] nyheimar.is.