Ræða ráðherra á umhverfisþingi

jóhann Páll

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, loftslags og orkumálaráðherra ávarpaði fullan sal á Umhverfisþingi í Hörpu dagana 15-16. september 2025

 

Forseti Íslands, kæru gestir.

Gleðilegt umhverfisþing!

Ég held við séum flest komin hingað af því að okkur þykir vænt um landið okkar, okkur þykir vænt um jörðina okkar. Og við vitum hvað það er mikið í húfi.

Við erum kannski lítil hérna á Íslandi, en það sem við eigum hérna saman er alveg ótrúlega sérstakt.

Ísland er eyja, hún er splunkuný í heimssögulegu samhengi, reis úr sjónum eiginlega í gær og ennþá að mótast. Hér mætast jöklarnir og eldfjöllin og mynda landslag sem virkar fyrir mörgum eins og að vera komin á aðra plánetu.

Jöklarnir hafa í þúsundir ára verið soldið eins og myndhöggvarar, sem eru að nostra og dedúa og leika sér með eyjuna okkar. Nú eru þeir í varnarbaráttu, þeir hopa hratt vegna hlýnandi loftslags sem minnir okkur á það hversu brothætt náttúran er, og minnir okkur líka á afleiðingarnar ef mannkynið bregst ekki við.

Svo er það eldvirknin, hvar værum við án hennar? Hún skapar sannarlega áskoranir, hún veldur sárum eins og við höfum því miður fengið að kynnast á síðustu árum, en hún færir okkur líka jarðhita og hreina orku. Eins og jöklarnir þá gerir hún landið okkar að því sem það er.

Svo lifum við hérna og hrærumst mannfólkið. Við erum kannski ekkert mikið að spekúlera í þessu öllu saman frá degi til dags en við njótum góðs af og nýtum okkur auðlindirnar hins ítrasta.

Og við berum líka ábyrgð á því að passa upp á þessi verðmæti. Það gerir það enginn fyrir okkur. Það gerir það enginn annar en við sem búum hérna á Íslandi. Og hugsum ykkur, við búum á landi sem geymir 40 prósent af öllum ósnortnum víðernum Evrópu. Þetta er klikkuð tala, 40% af öllum ósnortnum víðernum Evrópu eru á Íslandi. Og þetta leggur okkur skyldur á herðar.

Þetta þýðir að við verðum að fara varlega. Við verðum að hugsa ekki mánuði og ár fram í tímann heldur áratugi og árhundruð fram í tímann.

Og við verðum að gæta að sérstöðu okkar þegar við setjum lög og reglur. Við skulum alltaf staldra við áður en ráðist er í umfangsmiklar framkvæmdir sem hafa áhrif á náttúruna. Við gerum þetta til dæmis í orkumálunum, þar erum við með séríslenskt fyrirbæri, eins konar viðbótar lag, viðbótar nálarauga þegar kemur að virkjunum.

Rammaáætlun

Hér er ég að tala um rammaáætlun. Ferli þar sem sérfræðingar rýna verndargildi svæða, hagkvæmni og samfélagslega hagsmuni, fara rækilega yfir gögnin og pólitíkin tekur svo ákvörðun um hvort hleypa eigi virkjunarhugmynd yfir höfuð inn í formleg leyfisferli eða bara alls ekki.

Við höfum þurft að verja þetta pólitíska stýritæki okkar í samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA sem spyr okkur: hvernig í ósköpunum samræmist þessi “hindrun” raforkuregluverki Evrópusambandsins, prinsippum um hindrunarlitla samkeppni við framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Afstaða ríkisstjórnarinnar er skýr. Við munum standa vörð um rammaáætlun og við ætlum að tryggja að hún virki og gangi smurt fyrir sig. Virkjanir eru ekki einkamál sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða sérfræðingahópa, við notum rammaáætlun vegna þess að þetta er landið okkar allra, þetta er náttúran okkar, og það kemur okkur öllum við hvernig hún er meðhöndluð.

Og já, það er pólitísk stefna núverandi ríkisstjórnar að afla meiri orku. Ekki af því við séum nauðbeygð til þess vegna orkuskorts og orkuþarfar, nei, við viljum afla orku til þess að styðja við verðmætasköpun og byggðaþróun, styðja við orkuöryggi og orkuskipti og bæta lífskjör í landinu.

En ég legg áherslu á að við styrkjum stjórnsýslu umhverfis- og orkumála í báðar áttir, tryggjum skilvirkni, fyrirsjáanleika og skýrar leikreglur þegar kemur að orkuöflun en að við tökum líka verndarflokkinn alvarlega.

Að við tökum friðlýsingar alvarlega og að við tökum náttúruvernd alvarlega.

Kæru gestir.

Það er afleit staða fyrir náttúruvernd á Íslandi að engin svæði sem Alþingi hefur samþykkt í verndarflokk rammaáætlunar frá því lögin voru sett hafi verið friðlýst með lögformlega réttum og bindandi hætti. Það kallar á tiltekt og ég hef þegar lagt fram frumvarp sem tekur á þessari óvissu.

Og þá held ég að við ættum að velta því fyrir okkur hvort við viljum ekki fyrst og fremst, eftir allar þær umfangsmiklu rannsóknir á náttúruverðmætum sem fara fram í rammaáætlunarferlinu, hvort við viljum ekki fyrst og fremst friðlýsa svæði vegna  þeirra náttúru- og menningarminja sem við teljum þörf á að vernda og þá um leið tryggja að þau teljist inn í alþjóðlegar skuldbindingar okkar um verndun víðerna og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Viljum við bara friðlýsa gegn orkuvinnslu eða viljum við ekki tryggja vernd náttúru- og menningarverðmæta almennt á þessum svæðum? Þegar það hafa farið fram vandaðar og umfangsmiklar rannsókna og yfirferð sérfræðinga í rammaáætlun, sem draga fram verndargildi og mikilvægi náttúru og landslagsheilda, er það þá ekki ákveðin skammsýni ef ferlinu lýkur einungis þannig að svæðin séu friðlýst gegn orkuvinnslu?

Varðandi friðlýsingar almennt á grundvelli náttúruverndarlaga vil ég segja þetta: Náttúruvernd má aldrei bara snúast um að haka í einhver box og telja sig upp í einhvern fjölda svæða.

Markmiðið er ekki friðlýsingin sjálf heldur virk verndun náttúrunnar sem við eigum hérna saman. Í dag hafa um 130 svæði verið friðlýst, en fyrir aðeins rúmlega þriðjung þeirra liggur fyrir stjórnunar- og verndaráætlun. Það er ekki boðleg staða, og hér þurfum við að taka til hendinni.

Svo er það vindurinn og vindorkan sem vekja miklar tilfinningar hjá fólki. Hér verðum við að koma okkur upp skýrum ramma og löggjöf. Ég til að nálgunin verði þessi: að við hefjum það yfir allan vafa að vindurinn heyrir undir rammaáætlun. Að við rauðmerkjum stór svæði á landinu og útilokum þar vindorkugarða og gefum svo sveitarfélögum að öðru leyti neitunarvald gagnvart þessum framkvæmdum.

Vindorka á landi getur spilað vel saman við vatnsaflið á afmörkuðum svæðum en hún mun aldrei gegna neinu meiriháttar hlutverki í orkubúskap Íslands – enda myndi það ganga gegn þeim verndarhagsmunum sem ég fór yfir hér áðan, sérstöðunni sem við viljum standa vörð um.

 

Góðir gestir og áheyrendur.

 

Það eru ekki eingöngu jöklarnir og eldfjöllin sem gera Ísland sérstakt. Hér erum við með sjaldgæf vistkerfi og flóru sem hefur aðlagast harðbýlu umhverfi. Í aldanna rás hefur orðið eyðing á gróðri og skógi, hvoru tveggja vegna áhrifa náttúruaflanna og áhrifa mannsins. Þetta er þróun sem við verðum að snúa við, bæði með því að endurheimta röskuð vistkerfi og með því að vernda þau sem enn eru til staðar, passa upp á fuglana okkar og búsvæði þeirra.

Og í loftslagspólitíkinni þá við setjum þessar náttúrumiðuðu lausnir á oddinn. Þið heyrðuð það kannski þegar við kynntum forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í síðustu viku. Þar er endurheimt votlendis og vistkerfa risa áherslumál vegna þess að þarna sláum við svo margar flugur í einu höggi.

Í fyrsta lagi er endurheimt votlendis er einhver hagkvæmasta loftslagsaðgerð sem unnt er að framkvæma á Íslandi ef við horfum á samdrátt í losun sem fæst fyrir hverja krónu.

Í öðru lagi þá er endurheimt votlendis og hnignaðra vistkerfa grundvallaratriði til þess að verja og styrkja líffræðilega fjölbreytni á Íslandi sem er einmitt áherslumál í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Í þriðja lagi styður endurheimt votlendis við aðlögun að loftslagsbreytingum með bættri vatnsmiðlun, styrkir þanþol vistkerfa og vinnur gegn náttúruvá eins og þurrkum og flóðum. Þetta er ekki bara loftslagsmál heldur líka umhverfismál og náttúruverndarmál.

Vernd í hafi

Hvað varðar vernd á landi þá stöndum við okkur þokkalega. Hér eru rúmlega 130 friðlýst svæði sem þekja rúmlega 20% landsins. Í hafinu erum við ekki á sama stað, þar er þekja verndarsvæða rétt um 2% sem er grátlegt fyrir eyríki eins og Ísland sem á allt undir heilbrigðu hafi.

Hér mun ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur rjúfa kyrrstöðuna. Við fórum út á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í vor með skýr skilaboð, sem eru þessi: Sjálfbær nýting fiskistofna á grundvelli vísinda hefur reynst okkur ómetanleg, en við getum ekki látið staðar numið þar, við verðum líka að nálgast hafið með víðtækari hætti, út frá varúðar- og vistkerfisnálgun og út frá verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Við verðum að horfa á það hvernig fiskistofnar, botnvistkerfi, næringarefni og loftslagsbreytingar hafa áhrif hvert á annað. Hvernig markviss verndun hafsvæða getur stuðlað að endurheimt og styrkingu fiskistofna, hvernig verndarsvæði í hafi auka einnig seiglu vistkerfa gagnvart loftslagsbreytingum með því að viðhalda náttúrulegum ferlum, þar á meðal kolefnisbindingu.

Ávinningur af vel heppnuðum verndarsvæðum í hafi er því margþættur. Lykilþáttur hér er samstarf og upplýst ákvarðanataka byggð á bestu mögulegu vísindaupplýsingum. Og þar höfum við hér á Íslandi sterkan grunn til að byggja á.

Ég lýsti því yfir afdráttarlaust í Nice að Ísland ætlar að vernda vistkerfi í hafi með hliðsjón af alþjóðlegum markmiðum um vernd 30% hafsvæða fyrir 2030. Ég veit að við getum þetta. Vinnan er komin á fullt, þetta er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins og ég vil að þið dæmið mig í lok kjörtímabils eftir því hvort við náðum árangri í þessum efnum eða ekki.  Mikilvægt skref sem er lögfesting á BBNJ-samningnum, samningi Sameinuðu þjóðannaum vernd og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni hafsins utan lögsögu ríkja. Þetta klárum við núna strax fyrir jól.

Kæru gestir.

Það er takmarkað sem maður kemst yfir í svona stuttu ávarpi. En nú eigum við hérna saman framundan tvo daga þar sem við munum beina sjónum að loftslagsvánni, að tapi líffræðilegrar fjölbreytni og þeirra breytinga sem eru að verða á hafinu. Þetta eru ekki einangruð fyrirbæri, heldur samtvinnuð vandamál sem krefjast samstilltra aðgerða.

Þar verður Ísland að stíga fast til jarðar. Það skulum við gera og við gerum það saman. Ég segi Umhverfisþing 2025 sett.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd