Aðgangur að hreinni, heilbrigðri og sjálfbærri náttúru eru mannréttindi
Árið 2021 samþykktu Alþjóða náttúruverndarsamtökin (IUCN – International Union for the Conservation of Nature) ályktun um að það væru mannréttindi að hafa aðgang að hreinni, heilbrigðri og sjálfbærri náttúru. Slíkur réttur er viðurkenndur í meira en 150 lögsögum, en þessi alþjóða ályktun gerir það auðveldara að samtvinna alþjóðalög og sterkari innleiðingu innan landa.
Ári seinna viðurkenndi Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna réttinn á hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi sem mannréttindi (Samþykkt 76/300 frá 2022). Allsherjarráðið skoraði í þeirri samþykkt á ríki, alþjóðlegar stofnanir, fyrirtæki og aðra hlutaðeigandi hagaðila að samþykkja stefnu, efla alþjóðlegt samstarf, efla getuuppbyggingu og halda áfram að deila góðum starfsháttum til að auka viðleitni til að tryggja hreint, heilbrigt og sjálfbært umhverfi fyrir alla.
Einnig hvatti Reykjavíkursáttmáli Evrópuráðsins (Reykjavik declaration 2023) til þess að efla starf Evrópuráðsins að mannréttindaþáttum umhverfisins sem byggir á pólitískri viðurkenningu á réttinum til hreins, heilnæms og sjálfbærs umhverfis sem mannréttindi.
Rétturinn til heilnæms umhverfis hefur fengið meðbyr alþjóðlega. Mannréttindasáttmáli Evrópu tryggir þó ekki enn sérstaklega slík réttindi. Andi nýlegrar samþykktar Alþjóða náttúruverndarsamtakanna, sem og Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, um alþjóðlegan rétt til heilnæms umhverfis sem mannréttindi, sem einnig hefur verið hvatning til frekari vinnu hjá Evrópuráðinu er því ótvíræður.
Við hvetjum stjórnvöld til að samþykkja lög um að aðgengi að hreinni, heilbrigðri og sjálfbærri náttúru séu mannréttindi – til að vera ekki eftirbátur í alþljóðasamfélaginu.
Fyrir hönd Landverndar,
Þorgerður María Þorbjarnardóttir
Ályktunin var send fjölmiðlum 10. október 2024.