Stjórn Landverndar hefur fjallað um þá ákvörðum umhverfisráðherra að friða rjúpuna fyrir veiðum árin 2003, 2004 og 2005.
Stjórnin telur að það hafi verið óhjákvæmilegt fyrir umhverfisráðherra að grípa til þessa úrræðis. Það hefði þó verið æskilegt að ákvörðun hefði legið fyrir með meiri fyrirvara.
Rannsóknir á rjúpu undanfarin ár og endurskoðun eldri gagna benda til þess að rjúpnastofninn sé nú í lágmarki þ.e. toppar í hámarksárum hafa farið lækkandi, sveiflur að jafnast út, og stofninum hefur hrakað jafnt og þétt frá sjötta áratug síðustu aldar. Þekking á orsakaþáttum þessara sveiflna er takmarkað og því nauðsynlegt að rannsaka þessi mál betur.
Stjórn Landverndar tekur undir þau sjónarmið umhverfisráðherra að veiðarnar gangi á stofninn og dragi úr vonum um að stofninn nái sér. Stjórnin telur augljóst að ráðherra hafi haft varúðarregluna að leiðaljósi við þessa ákvörðun.
Stjórnin leggur áherslu á að þessi þrjú ár friðunar verði notuð til að móta nýjar reglur um rjúpnaveiðar þar sem bæði verði tekið tillit til útivistar- og veiðihagsmuna og náttúruverndarsjónarmiða.