Rödd ungs fólks þarf að heyrast skýrt á alþjóðavettvangi

Ungir umhverfissinnar á COP30 í Belém, Brasilíu

„Á COP30 vil ég beita mér fyrir raunverulegum og réttlátum loftslagsaðgerðum og tryggja að rödd ungs fólks á Íslandi heyrist skýrt á alþjóðavettvangi. Við eigum ekki að sitja hjá heldur taka virkan þátt í að móta framtíðina okkar,“ segir Laura Sólveig Lefort Scheefer, forseti Ungra umhverfissinna (UU). Hún fer sem fulltrúi samtakanna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ), COP30, sem haldin verður í Belém í Brasilíu dagana 10.–21. nóvember 2025.

Laura er hluti af íslensku sendinefndinni sem ungmennafulltrúi Íslands til SÞ á sviði loftslagsmála. Hún mun taka virkan þátt í samningaviðræðum, fundum, pallborðum og viðburðum, auk þess að miðla upplýsingum heim til Íslands.

UU hafa tekið virkan þátt á loftslagsráðstefnum SÞ undanfarin ár og hafa sent fulltrúa á COP26, COP27, COP28, og COP29. Því býr félagið yfir víðtækri reynslu og þekkingu á því hvernig best er að hafa áhrif á ákvarðanatöku og miðla upplýsingum af vettvangi.

Af hverju skiptir máli að unga fólkið sé með?

UU leggja ríka áherslu á að raddir ungs fólks séu hluti af ákvarðanatöku um framtíðina þeirra, enda hafa loftslagsbreytingar hvað mest áhrif á yngri kynslóðir. Aðgerðarleysi og vanmat á röddum ungs fólks dregur úr raunverulegri framþróun í loftslagsmálum.

„Ef ekkert verður að gert mun ungt fólk á Íslandi þurfa að horfa upp á jöklana okkar hverfa, fiski- og fuglastofna rýrna og upplifa harðari og kaldari vetrarhörkur vegna breytinga á hafstraumum. Þau munu erfa afleiðingar loftslagskreppunnar þrátt fyrir að hafa enga stjórn haft á henni,“ segir Laura.

Ein stærsta rannsókn sem gerð hefur verið á viðhorfi fólks til loftslagsmála, framkvæmd af SÞ og Oxford-háskóla, náði til um 1,2 milljónir manns í 50 löndum. Hún sýnir að ungt fólk er almennt áhyggjufullast yfir loftslagsbreytingum og sýnir mestan áhuga á aðgerðum á heimsvísu. Það er því brýnt að stjórnvöld hlusti og taki ungt fólk raunverulega með í ákvarðanatöku.

Þrátt fyrir aukna þátttöku glímir ungt fólk enn við hindranir eins og vantrú og vanmat á getu sinni, skort á stuðningi og fjármagni, og álag vegna þess að þurfa að sinna loftslagsmálum samhliða námi og vinnu. Margir upplifa andlega erfiðleika og jafnvel kulnun. Til að tryggja raunverulegt loftslagsréttlæti verður að viðurkenna ungt fólk sem virka þátttakendur í ákvarðanatöku og skapa rými þar sem rödd þeirra skiptir máli og hefur áhrif.

Kröfur UU til stjórnvalda í aðdraganda COP30
Í aðdraganda ráðstefnunnar kynna Ungir umhverfissinnar sex kröfur til íslenskra stjórnvalda.

Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld:

  1. Sýni gott fordæmi hér heima: Grípi til mun róttækari mótvægisaðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, þar sem framvinda hefur staðið í stað og jafnvel dregist aftur á sumum sviðum á undanförnum árum.

  2. Taki virkan þátt í alþjóðlegum samningaviðræðum: Þrýsti markvisst á metnaðarfullar niðurstöður á ráðstefnunni og skuldbindi sig skýrt við að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C.

  3. Hvetji til útfösunar jarðefnaeldsneytis: Vinni markvisst að því að fasa út jarðefnaeldsneyti innanlands og þrýsti á útfösun þess á alþjóðavettvangi.

  4. Tryggi loftslagsréttlæti og fjárfestingu í aðlögun: Leggi áherslu á að allar ákvarðanir byggist á loftslagsréttlæti og að veitt sé aukið fjármagn til aðlögunar og forvarna gegn tjóni, með sérstakri áherslu á þarfir og réttindi viðkvæmra samfélaga á heimsvísu.

  5. Auki þátttöku ungs fólks: Tryggi skyldubundna og áhrifaríka þátttöku ungs fólks í loftslagsmálum, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

  6. Tryggi eftirfylgni eftir COP30: Tryggi að ákvarðanir ráðstefnunnar verði framkvæmdar,  svo að COP30 hafi varanleg og mælanleg áhrif.

„Í ár verður COP haldið í Amazonhéraði, einu mikilvægasta líffræðilega svæði heims. Þar verður framtíð mannkyns og náttúrunnar rædd. Mottó ráðstefnunnar er “Mutirão” sem merkir alþjóðleg samvinna á brasilísku. Það endurspeglar kjarnann í því sem við sem mætum þangað þurfum að gera: að standa saman og passa að það sé ekki gefist upp. Afleiðingar loftslagsbreytinga munu ná til allra, þó svo að formerkin, áhuginn, og umræðan um þær breytist, og við verðum því að taka þeim alvarlega. Ráðstefnan getur og á að vera hvati til breytinga, en raunverulega áskorunin felst í því sem gerist eftir ráðstefnuna. Það er framkvæmdin sem ræður áhrifunum“

 

– Laura Sólveig Lefort Scheefer, Forseti Ungra umhverfissinna

 

„Það er gríðarlega mikilvægt að við stöndum vörð um 1,5 gráðu markmiðið. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur nýverið varað við því að það sé í hættu, og hækkun hitastigs umfram það gæti haft gífurlegar afleiðingar. Ef við bregðumst ekki við er hætta á að fjöldi láglendra eyríkja hverfi undir sjávarmál. Á þessari ráðstefnu verðum við að koma saman og móta alþjóðlega áætlun til að bæta upp skortinn og flýta framvindu.“

– Laura Sólveig Lefort Scheefer, Forseti Ungra umhverfissinna

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd