Samband manns og náttúru rofið

Tryggvi Felixson formaður Landverndar, landvernd.is
Tryggvi Felixson formaður Landverndar, ljósmynd: Oddur Freyr Þorsteinsson, fyrir Fréttablaðið.
Ávarp Tryggva Felixsonar formanns á aðalfundi Landverndar 2022.

Páll Skúlason, heimspekingur, segir í bók sinni Hugleiðing við Öskju

„Við erum til og lifum í trúnaðarsambandi við veruleikann sjálfan. Veruleikinn er náttúruleg heild, Náttúran. Afdrifaríkustu viðburðir vestrænnar sögu síðustu alda er brestur í sambandi manns og náttúru. Höfuðvandi nútímans er að lífið er í lausu lofti þar sem trúnaðarsamband manns við náttúru er brostið.“

Einn megintilgangur með starfi náttúruverndarsamtaka er að opna augu fólks fyrir dásemdum jarðar – og að leggja rækt við hið nauðsynlega samband á milli manns og náttúru: Byggja upp það trúnaðarsamband manns við náttúru sem Páll Skúlason sagði brostið. Þetta er eitt mikilvægasta viðfangsefni nútímans og lykill að lausn á mörgum vanda sem við blasir. Þetta samband er forsenda þess að við getum framkvæmt orkuskipti sem við getum orðið stolt af.

RAFMAGN OG VELSÆLD ÞJÓÐAR

Engin þjóð í heiminum hefur hlutfallslega yfir jafn mikilli raforku að ráða og Íslendingar. Aðgangur að gnótt raforku er á margan hátt gæfa þjóðarinnar. En ekki má gleymast að umtalsverðum hluta þessarar orku hefur verið aflað með því að spilla verðmætum náttúruarfi þjóðarinnar. Mál er að linni!
Þessi misserin rignir yfir þjóðina fullyrðingum að raforku skorti til að viðhalda velsæld á Íslandi. Því fer fjarri að frekari framleiðsla raforku sé meginforsenda velsældar. Verndun íslenskrar náttúru stuðlar ekki síður að velsæld og tækifærum í framtíðinni. Náttúrulegar sveiflur í vatnafari geta og hafa skert framboð á raforku um stuttan tíma. Við slíku tímabundnu ástandi er best að bregðast með ákvæðum í samningum við stórnotendur. Með rökréttri forgangsröðun á notendum raforku, bættri nýtni orkumannvirkja og betra dreifikerfi, getur samfélagið mætt nauðsynlegri raforkuþörf næstu árin. Útiloka ber sölu á raforku til framleiðslu rafmyntar sem á þátt í að viðhalda samfélagsskemmandi starfsemi. Þess í stað ætti að forgangsraða orkunni til bráðnauðsynlegra orkuskipta.

HÁLENDISÞJÓÐGARÐUR Í SKREFUM

Hálendið sem heild verður best verndað til langrar framtíðar sem þjóðgarður. Ríkisstjórnin segist nú ætla að fella jökla hálendisins og þegar friðlýst svæði undir Vatnajökulsþjóðgarð. Það er góð byrjun, en aðeins áfangar í átt að þjóðgarði sem með tíð og tíma þarf að ná til allra þjóðlendna og ríkisjarða á Hálendi Íslands. Skoðanakannanir sýna að stefnan á hálendisþjóðgarð nýtur víðtæks stuðnings.
Það yrði skref í rétta átt að nýta kjörtímabilið til að fella tvö stór hálendissvæði undir þjóðgarð: Annars vegar landið umhverfis Langjökul og Hofsjökul og svæðið á milli jöklanna einnig. Hins vegar Mýrdalsjökul, Friðland að fjallabaki og svæðið þar á milli.

RAMMAÁÆTLUN VEITIR YFIRSÝN

Aðferðafræði sem beitt er við gerð rammaáætlunar veitir nauðsynlega yfirsýn og mat á náttúruverndargildi landsvæða og á áhrifum hugsanlegra virkjana þar á. Í nýtingarflokk falla hugmyndir sem teknar verða til frekari skoðunar við mat á umhverfisáhrifum. Varast ber að líta á nýtingarflokk sem endanlega ákvörðun um staðsetningu virkjana vegna þess að þegar virkjanakostir eru metnir í rammaáætlun er notast við takmörkuð gögn. Við mat á umhverfisáhrifum eru gögnin betri og ítarlegri. Reynslan sýnir að umhverfismat getur kollvarpað niðurstöðu rammaáætlunar. Dæmi um þetta er Hvalárvirkjun. Vandinn er að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum er ekki lögð til grundvallar við ákvarðanir um framkvæmdir eins og lögin tilgreina.
Tillaga að rammaáætlun 3 hefur verið lögð fyrir Alþingi. Í fjórða sinn fær Alþingi tækifæri til þess að ljúka málinu. Samkvæmt lögum skal raða virkjunarhugmyndum á faglegum forsendum í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk. Pólitísk hrossakaup eru lögleysa.

OKKAR LANDVERND

Með Skólum á grænni grein gegnir Landvernd lykilhlutverki í því að efla menntun til sjálfbærni á Íslandi. Allt er það gert í góðu samstarfi við skólasamfélagið og stjórnvöld, sem hafa treyst okkur fyrir þessu mikilvæga verkefni. Hlutverk Landverndar er einnig að vera rödd náttúrunnar. Það getur verið afar krefjandi þegar umdeild mál eru á dagskrá. Háttvísi og rökfastur málflutningur efla trúverðugleika samtakanna. Staðfestu og úthald þarf líka til.
Starf Landverndar byggir á stórum hópi félaga og stuðningsaðila, virkri stjórn og öflugri skrifstofu með framkvæmdastjóra í broddi fylkingar. Öllum þessu góða fólki þakka ég samstarfið og stuðninginn.

Tryggvi Felixson formaður Landverndar 2021 – 2023

Ávarp formanns birtist fyrst í Ársriti Landverndar 20. maí 2022. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd