Samhljómur hamingjunnar

Krækiber og krækiberjalyng. landvernd.is
Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar skrifar um náttúrutíðni og samhljóm hamingjunnar.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar skrifar.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar.

Allt er tíðni. Öll orka er tíðni og allt efni er tíðni. Við manneskjurnar erum þar engin undantekning. Við erum gangandi tíðni í eilífri leit að „réttum“ takti, þeim takti sem veitir okkur hámarks vellíðan hverju sinni. Liggur okkar eðlislæga tíðni og taktur ef til vill í flæði nátttúrunnar? Við erum jú hluti af þessari endalausu hreyfingu þar sem allt fram streymir endalaust; flóði og fjöru, tunglgangi, snúningi pláneta um sólu.

Við höfum lengst af verið í nánum tengslum við náttúruna. Hún færir okkur ró, styrk, kraft, frið, sátt, breytileika og jafnvægi. Hún hefur mikilvægan heilunarmátt sem fylgt hefur kynslóðunum í gegnum aldirnar. Náttúran er síbreytileg en alltaf full af styrk og krafti. Hún er alltaf til staðar, hvar sem við búum. Það er því auðvelt fyrir okkur flest að nýta hana betur til sjálfsstyrkingar, vera hluti af stærri veröld. Vera hluti af henni.

Það er engu að síður ljóst að tengsl okkar við náttúruna hafa breyst hratt undanfarna áratugi. Tækni og framþróun skilnings hafa breikkað bilið og breytt nánd okkar við hana. Við virðum ekki alltaf náttúruna, okkur finnast á stundum gjafir hennar sjálfsagðar og jafnvel ofnýtum þær, til ætlaðs framdráttar. Við höfum færst frá því að vera hluti af náttúrunni í átt að því að vilja stjórna henni og ráða. Allt þetta framferði okkar byggjum við á mjög svo takmarkaðri skynjun á náttúrunni. Takmarkaðri skynjun fimm skynfæra á þrívíðum heimi þar sem við með sandkornum, síðar úrskífum og tölvuskjám höfum umfaðmað fjórðu víddina, tímann, og með því gert hann að herra.

Höfum við skilið okkur um of frá náttúrunni með aukinni tækniþróun og eftirsókn eftir „lífsgæðum“? Lítum við í auknum mæli svo á að við séum ekki hluti af náttúrunni og nærandi tíðni hennar og takti? Hvernig upplifir yngsta kynslóðin sem alin er upp við tilbúna rafsegultíðni „tækniframfara“ náttúruna og tengsl sín við hana? Ef marka má rannsóknir, hafa börn aldrei verið jafn kvíðin og nú. Almennt hefur tíðni geðraskana og aukin örorka af þeirra völdum aukist umtalsvert og samhliða hefur geðlyfjanotkun aukist mikið.

Það er óumdeilt að umhverfi okkar og erfðir hafa áhrif á líðan okkar. Góð geðheilsa birtist í samhljómi tíðnisviðs okkar og lífstakts og góð geðheilsa er undirstaða lífsgæða og lífsánægju. Geðheilsa er ekki aðeins það að vera laus við geðraskanir heldur það að búa við tíðni og takt sem hámarkar vellíðan og gerir okkur kleift að nýta hæfileika okkar til fulls. Gerir okkur kleift að takast farsællega á við verkefni daglegs lífs og eiga uppbyggileg og ánægjuleg samskipti við fólkið og náttúruna í kringum okkur.

Ýmislegt bendir til þess að við skynjum aðeins hluta af nærandi tíðni náttúrunnar og nú á tímum, þegar nærumhverfi okkar er í ríkum mæli litað af ónáttúrulegri tíðni, er fátt skynsamlegra en að leita aftur til upphafsins, til náttúrunnar.

Finndu þína staði í náttúrunni, bæði þá sem stutt er að sækja og þá sem krefjast lengra ferðalags. Ef þú kemst ekki út í náttúruna eins reglulega og þú vildir, taktu hana þá heim til þín (útsýnið úr stofunni, kvikmyndir, steinar í glugga, tónlist og svo framvegis). Njóttu og hvíldu í hverri árstíð. Semdu frið við veturinn, snjóinn, myrkrið, rigninguna og hálkuna. Finndu heilunarmáttinn í kliðandi læk, regni á rúðu, fuglasöng í tré og allri þeirri tíðni sem er okkur eðlislæg. Allri þeirri tíðni sem við erum hluti af.
Þar liggur samhljómur hamingjunnar.

Höfundur er formaður Geðhjálpar. 

Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 20. maí 2022. 

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd