Á fundi sínum í dag samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg, sem eigandi 45% af Landsvirkjun, að fallið yrði frá áformum um Norðlingaölduveitu. Jafnframt hafa þau tíðindi borist að á Alþingi sé meirihluti fyrir því að samþykkja ályktun þar sem mælt yrði fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum þannig að það næði betur til þeirra verðmæta sem svæðið býr yfir. Umhverfisráðherra hefur einnig tekið jákvætt undir hugmyndir um að friðlandið verði stækkað og forsætisráðherra segir að Norðlingaölduveita sé ekki aðkallandi verkefni.