Framkvæmdastjóri Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir skrifar.
Þórður Gunnarsson, sjálfstætt starfandi sérfræðingur á sviði hrávörumarkaða, steig í furðu algengan pytt í grein sem birtist nýlega í Markaðinum, vikulegu viðskiptablaði Fréttablaðsins. Þar fullyrti hann að „ef álverin við Grundartanga og Reyðarfjörð hefðu ekki orðið að raunveruleika, hefðu þau verið byggð annars staðar þar sem rafmagnsframleiðsla til að knýja þau hefði að öllum líkindum mengað miklu meira.“
Nákvæmlega engin gögn styðja þessa fullyrðingu Þórðar. Þvert á móti benda tölur yfir þróun álverðs og álframleiðslu í heiminum undanfarin ár eindregið til þess að helsta framlag álvera á Íslandi sé að auka við offramboð áls á heimsvísu og að engin ástæða sé til að ætla að bygging þeirra hér komi í veg fyrir byggingu álvera annars staðar. Þar leikur framlag Kína síðastliðinn áratug stærsta hlutverkið en sá ríkisstyrkti áætlanabúskapur sem þar er stundaður hefur orðið til þess að álverum hefur verið lokað unnvörpum í öðrum löndum.
Bara vöxtur í Kína og á Íslandi
Skoðum tölurnar aðeins. Fjarðaál við Reyðarfjörð er langstærsta álver Íslands með framleiðslugetu upp á allt að 360 þúsund tonnum á ári. Þegar Fjarðaál var opnað 2007 var heildarframleiðsla áls í heiminum 38.132 milljón tonn. Þar af var hlutur álvera í VesturEvrópu 4.305 milljón tonn og í Norður Ameríku 4.139 milljón tonn. Hvað hefur gerst síðan? Í fyrra nam álframleiðslan bara í Kína 38.875 milljónum tonna, eða meira en samanlögð heimsframleiðslan 2007. Frá því ári hefur álframleiðsla dregist saman í Norður-Ameríku, Vestur-Evrópu, Austur- og Mið-Evrópu, Afríku, Suður-Ameríku, Asíu utan Kína og Eyjaálfu. Sem sagt, nánast alls staðar nema á Íslandi og í Kína.
Ál hefur hrunið í verði
Skoðum nú verðþróunina á sama tíma, frá 2007 til 2020. Í mars 2007, árið sem Fjarðaál var gangsett, kostaði eitt tonn af áli 2.777 dollara. Nú er verðið komið niður í 1.697 dollarar. Það er 39 prósenta lækkun.
Lágt verð á áli birtist síðan því miður í kæruleysi þegar kemur að endurvinnslu þess, en ál er nánast 100 prósent endurnýtanlegt. Í Bandaríkjunum er til dæmis á hverju þriggja mánaða tímabili urðað svo mikið magn af áli að það myndi duga til þess að endurnýja allan flugflota landsins. Með öðrum orðum, þá væri hægt að endurnýja allan flugflota Bandaríkjanna fjórum sinnum á ári bara með því magni sem er hent þar í landi.
Þetta er bæði grafalvarlegt og dapurlegt eins og sést best á því að það þarf 95 prósent minni orku til að framleiða gosdósir úr endurunnu áli en úr nýju áli.
Stuðlar að meiri losun
Þó að hér séu byggð álver þá hafa margfalt fleiri verið byggð í Kína. Það er því ekkert orsakasamhengi á milli þess að bygging álvera hér komi í veg fyrir byggingu þeirra annars staðar. Hvorki Þórður né aðrir sem hafa haldið sama sjónarmiði fram, geta vísað í neitt sem styður slíkan málflutning.
Hinar köldu tölur um framleiðslumagn og verð á áli segja okkur hins vegar afar skýrt að með því að selja álverum ódýra orku er beinlínis verið að stuðla að offramboði og lágu verði á áli og þar með meiri losun gróðurhúsalofttegunda.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. apríl 2020.
Mynd: Elkem, Grundartanga.