Uppskeruhátíð í verkefninu Umhverfisfréttafólk fór fram fimmtudaginn 10.apríl. Á hverju ári berast fjölmörg vönduð og fjölbreytt verkefni í keppnina frá skólum víðsvegar á landinu. Í ár voru það m.a. spil, myndbönd, hlaðvarp, fréttaskýringar, smásögur, dagatal, ljóð, listaverk, tímarit vöruhönnun og ljósmyndir.
1. sæti í framhaldsskólum
Í framhaldsskólum sigruðu nemendur Fjölbrautarskóla Suðurlands þau, Axel Sturla Grétarsson, Konráð Ingi FInnbogasson og Sunna Hlín Borgþórsdóttir með bókina um Kára hval
Umsögn dómnefndar:
Bókin og sagan er ádeila á hvalveiðar og ákall um að þeim sé hætt. Sagan af Kára hval er í senn falleg og sorgleg, vekur okkur til umhugsunar um hvali sem vitiborin dýr sem eiga fjölskyldu, sögu og eigið líf sem mannfólkið þarf að virða og bera gæfu til að vernda. Textinn og myndirnar senda skýr skilaboð sem eiga erindi við samtímann og lesendur á ýmsum aldri.

- sæti framhaldsskólar
1. sæti í grunnskólum
Í grunnskólum sigruðu nemendur í Garðaskóla þær Íris Eva Björnsdóttir, Sóley Andradóttir, Hafdís Marvinsdóttir, Lovísa Björg Georgsdóttir og Agla Benediktsdóttir með bókina Diðrik flokkar
Umsögn dómnefndar:
Í Diðrik flokkar er mikilvægum fróðleik um umhverfismál og skemmtilegum þrautum fléttað saman á eftirtektarverðan hátt. Myndirnar eru fallegar og valdeflandi fyrir lesendur að fá að takast á við vandann í gegnum þrautirnar. Boðskapurinn er skýr og gagnvirknin eykur á fræðslugildi bókarinnar. Það væri gaman að sjá hana bætast í flóru þrautabóka fyrir börn.

- sæti grunnskólar
Dómnefndina í ár skipuðu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Frétta- og dagskrárgerðarkona hjá RÚV
Bjarki Bragason myndlistarmaður og Deildarstjóri myndlistardeildar Listaháskóla Íslands
Íris Indriðadóttir vöruhönnuður og umhverfis- og auðlindafræðingur
Val unga fólksins er sér dómnefnd og hana skipuðu
Lísa Margrét Gunnarsdóttir
Forseti LÍS – Landssambands íslenskra stúdenta
Ragnhildur Katla Jónsdóttir Fræðslufulltrúi Ungra umhverfissinna

Verðlaunahafar í vali unga fólksins
Í framhaldsskólum var það vöruhönnunin – Vapeland eftir Víðir Þór Vignisson frá Fjölbrautarskóla Vesturlands
Umsögn dómara:
Vapeland er falleg og frumleg framsetning á mjög mikilvægum boðskap. Að nota ljósaperu til að vekja fólk til umhugsunar er skemmtileg nálgun – að fá fólk til að kveikja á perunni. Okkur þykir mikilvægt að boðskapurinn sé „Kveikið á perunni og hættið þessu rugli“ því viss vape-faraldur ríður yfir íslenskt samfélag og sérstaklega ungt fólk. Þar að auki er skemmtilegt að efniviðnum hafi verið safnað saman yfir tveggja vikna tímabil, og verkið kemur þannig inn á að hreinsa nærumhverfi sitt. Að lokum finnst okkur hugmyndin um að búa til fegurð úr einhverju sem er ljótt og skaðlegt lýsa listrænu innsæi þátttakandans.
Í grunnskólum var það þrautabókin Diðrik flokkar, eftir þær Írisi Evu Björnsdóttur, Sóleyju Andradóttur, Hafdísi Marvinsdóttur, Lovísu Björgu Georgsdóttur og Öglu Benediktsdóttur
Umsögn dómara:
Diðrik flokkar er einstaklega frumlegt og vel unnið verk. Framsetningin er skýr og falleg, bókin sjálf er full af gagnvirkum og fjölbreyttum verkefnum og greinilegt er að höfundar hafa hugsað út í markhópinn og að bókin myndi höfða til sem flestra. Við myndum vilja sjá Diðrik flokkar á öllum grunnskólabókasöfnum!

Rannsóknarblaðamennska ársins
Í ár voru veitt verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins og fengu þær Brynja Karen Hjaltested, Berglind Reynisdóttir og Úlfdís Vala Brekadóttir nemendur frá Menntaskólanum við Sund fyrir fréttaþátt um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Umsögn dómnefndar:
Myndbandið er vel unnið og greinilegt að höfundar hafa lagt á sig mikla vinnu til að draga upp greinandi og gagnrýna mynd af stöðu umhverfismála bæði alþjóðlega sem og hér á landi. Höfundar hafa hugrekki til að spyrja stórra spurninga um stöðu heimsmarkmiðanna, viðtöl eru upplýsandi og áhugaverð, aðferðin rannsakandi og vel til þess fallin að vekja áhorfendur til umhugsunar.
Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju með vel unnin störf og einnig öllum þeim sem sendu verkefni í keppnina. Hér má sjá öll þau verkefni sem unnu til verðlauna í ár ásamt umsögnum dómara.
Við hlökkum til að taka á móti nýjum verkefnum að ári og hvetjum þá sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið betur að gera það hér fyrir neðan eða hafa samband með því að senda póst á umhverfisfrettafolk@landvernd.is
.