Sjálfbær ferðamennska og náttúruvernd á háhitasvæðum

Mikill áhugi er á að þróa náttúrutengda ferðaþjónustu á Íslandi í átt að sjálfbærni. Markmið jarðhitaverkefnis Landverndar er að vernda viðkvæma náttúru jarðhitasvæða og renna styrkari stoðum undir sjálfbæra ferðamennsku á slíkum svæðum.

Sjálfbær ferðamennska og náttúruvernd á háhitasvæðum er tveggja ára verkefni sem Landvernd hleypti af stokkunum í upphafi árs 2012. Verkefnið er hugsað sem fyrsti hluti af langtímaverkefni um verndun jarðhita á Íslandi. Hérlendis er að finna stórbrotin og sérstök jarðhitasvæði sem eiga fáa sína líka í heiminum. Fjölbreytileiki svæðanna er mikill, hvort sem horft er til jarðfræði, líffræði eða litasamsetningar. Kannanir hafa sýnt að yfir 80% erlendra ferðamanna nefnir náttúru Íslands sem helsta aðdráttarafl landsins og þar spila jarðhitasvæði stórt hlutverk.

Afar mikilvægt er að tryggja vernd þessara einstöku auðlinda okkar þannig að Íslendingar, erlendir gestir, og komandi kynslóðir geti notið þeirra líka. Þessi svæði eru oft á tíðum sérstaklega viðkvæm fyrir átroðningi og umferð, en eru einnig beinlínis hættuleg ef ekki er farið varlega. Það er því mikilvægt að auka fræðslu um hina sérstöku jarðfræði, líffræði og verndargildi jarðhitasvæða og tryggja öryggi ferðamanna. Þannig má stuðla að ferðamennsku í sátt við umhverfi og náttúru.

Markmið

Mikill áhugi er á að þróa náttúrutengda ferðaþjónustu á Íslandi í átt að sjálfbærni. Markmið jarðhitaverkefnis Landverndar er að vernda viðkvæma náttúru jarðhitasvæða og renna styrkari stoðum undir sjálfbæra ferðamennsku á slíkum svæðum. Þessu skal náð með því að:

  • auka fræðslu um jarðfræði, líffræði og náttúruverndargildi jarðhitasvæða
  • auka öryggi ferðamanna með betri upplýsingum um aðgengi og umgengni
  • fjölga tækifærum á heimsóknum og náttúruupplifun á fáförnum jarðhitasvæðum á hálendinu

Verkþættir

Sjálfbær ferðamennska og náttúruvernd á háhitasvæðum er hugsað til tveggja ára til að byrja með. Verkefninu er skipt í fjóra verkþætti: Skoðunarferðir, gerð fræðsluefnis, upplýsingaskilti og ráðstefnu. Stutt lýsing þessara verkþátta er hér að neðan.

Verkþáttur I: Skoðunarferðir með leiðsögn

Boðið var upp á þrjár skoðunarferðir á háhitasvæði sumarið 2012 þar sem farið var í Norður-Þingeyjarsýslu, Vonarskarð og svæði á Reykjanesskaga. Sumarið 2013 var farið í göngu meðfram Hólmsá í Vestur-Skaftafellssýslu ásamt göngu um Hengilssvæðið. Sumarið 2014 verður farið í fjórar skoðunarferðir í viðbót, um háhitasvæði Reykjanesskaga og Hengilsins ásamt göngu meðfram Hólmsá í Vestur-Skaftafellssýslu.

Leiðsögn verður í höndum jarðfræðinga og líffræðinga og lögð verður áhersla á sérstöðu, verndargildi og sjálfbæra ferðamennsku á þessum svæðum. Ferðirnar eru öllum opnar.

Verkþáttur II: Útgáfa fræðsluefnis

Bæklingar og veggspjöld verða gefin út með upplýsingum um jarðfræði og líffræði jarðhitasvæða, verndargildi þeirra og öryggi ferðamanna. Bæklingurinn mun útskýra á sem einfaldastan hátt hvernig jarðhitasvæði myndast og viðhaldast, hvernig þau skapa aðstæður fyrir einstaka þróun lífvera í hverum og affallsvatni, og hvað skýrir hina miklu litafjölbreytni sem þar finnst. Fræðsluefnið mun auka möguleika ferðamanna til að upplifa náttúru þessara einstöku svæða og auka vitund fólks um verndargildi þeirra. Hann mun einnig innihalda upplýsingar um öryggismál á jarðhitasvæðum og hvernig bregðast eigi við slysum, og þannig auka öryggi ferðamanna. Bæklingurinn verður því einskonar sjálfbærnileiðsögn um jarðhitasvæði. Hann verður ríkulega myndskreyttur og á fimm tungumálum (íslensku, ensku, dönsku, þýsku og frönsku).

Einnig er fyrirhugað að útbúa stutt myndskeið um verndargildi háhitasvæða og mikilvægi öryggismála. Myndskeiðin verða aðgengileg á samgöngumiðlum á veraldarvefnum, s.s. Facebook og YouTube.

Verkþáttur III: Upplýsingaskilti

Upplýsingaskilti verða sett upp á eða í nágrenni valinna háhitasvæða á hálendi Íslands. Á skiltunum verða upplýsingar um myndun og mótun svæðanna, líffræði þeirra og öryggismál. Kort verða notuð til að benda á markverðustu staði og leiðbeina ferðafólki varðandi umgengni og öryggi á svæðunum. Stefnt er að því að setja upp skilti í Vonarskarði, Reykjadal og Kerlingarfjöllum sumarið 2013.

Verkþáttur IV: Ráðstefna

Ráðstefna um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á jarðhitasvæðum var haldin í maí 2012 þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar og hagsmunaaðilar koma fram. Sérstök áhersla var lögð á að draga fram hvaða þættir stuðla að sjálfbærri ferðamennsku og hvaðan má sækja fyrirmyndir. Ráðstefna um þróun sjálfbærrar ferðamennsku á háhitasvæðum var haldin í maí 2013, þar sem erlendir sérfræðingar frá Nýja Sjálandi komu fram ásamt fulltrúum Ferðamálastofu, Háskóla Íslands og Umhverfisstofnunar. Þessi verkþáttur mun nýtast sérstaklega í þekkingaröflun fyrir aðra verkþætti.

Samstarfsaðilar

Fjölmargir samstarfsaðilar eru að verkefninu:

  • Náttúrufræðistofnun Íslands leggur fram vinnu sérfræðinga á sviði náttúrufars við gerð fræðsluefnis og upplýsingaskilta, auk þess að koma að leiðsögn í skoðunarferðum og að taka þátt í ráðstefnu.
  • Landsbjörg leggur fram sérfræðivinnu er lítur að öryggismálum fyrir gerð fræðsluefnis og upplýsingaskilta, auk ráðstefnu.
  • Ferðafélag Íslands mun koma að skipulagningu skoðunarferða.
  • Vatnajökulsþjóðgarður mun koma að gerð upplýsingaskilta í þjóðgarðinum.
  • Leitað verður til fleiri aðila eftir því sem verkefnið þróast.

Verkefnisstjórn

  • Sveinbjörn Björnsson (formaður), jarðeðlisfræðingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands. Sveinbjörn situr í stjórn Landverndar.
  • Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræði HÍ.
  • Guðríður Þorvarðardóttir, sérfræðingur, umhverfisráðuneyti.
  • Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála, iðnaðarráðuneyti.
  • Jónas Guðmundsson, sérfræðingur, Landsbjörgu.
  • Lovísa Ásbjörnsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands.

Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur, er starfsmaður verkefnisins.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd