Skólar á grænni grein fagna 20 ára afmæli á Íslandi árið 2021 og árið 2022 eru 20 ár frá því að fyrsti grænfáninn var afhentur á landinu. Við fögnum þessum tímamótum með fjölbreyttri afmælisdagskrá skólaárið 2021-2022.
Afmælisdagskrá skólaárið 2021-2022
Af hverju að fagna einu sinni þegar þú getur fagnað oft? Á afmælisári Skóla á grænni grein fær hver mánuður sitt þema og hvetjum við skóla til að taka með einhverjum hætti þátt í dagskránni.
Mánaðarlega munum við senda frá okkur litla fræðsluafmælispakka sem innihalda m.a. stutta fræðslu um þema mánaðarins. Nánari upplýsingar koma á vef grænfánans þegar nær dregur.
Sameiginlegur hátíðardagur 25. apríl 2022
Takið frá daginn 25. apríl 2022! Þá höldum við sameiginlegan grænfána hátíðardag – á Degi umhverfisins.
#grænfáninn20ára
Þema hvers mánaðar
September: Plast
Október: Loftslagsbreytingar og valdefling
Nóvember: Orka og vistspor/kolefnisspor
Desember: Neysla og hringrásarhagkerfið
Janúar: Matur og grænkerar
Febrúar: Grenndarnám og átthagar
Mars: Fataneysla og fatasóun
Apríl: Hnattrænt jafnrétti, lífsgæði og forréttindi
Sameiginleg afmælishátíð allra grænfánaskóla 25. apríl.
Maí: Lífbreytileiki
Júní: Vistheimt
Við viljum vekja athygli á því góða starfi sem unnið er í skólum landsins. Vilt þú segja frá því hvernig skólinn þinn hefur unnið að ákveðnu þema?
Skólar á grænni grein (Eco-schools) er alþjóðlegt menntaverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi frá árinu 2001. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning fyrir innleiðingu menntunar til sjálfbærni í skólastarfið og má finna skóla á grænni grein í 68 löndum í heiminum.
Verkefnið er stærsta sjálfbærni og umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education.
Árið 2001 skráðu fyrstu skólarnir skráð sig í verkefnið en það voru Andakílsskóli á Hvanneyri, Fossvogsskóli og Selaásskóli. Stuttu síðar hófu leikskólar þátttöku og tók leikskólinn Norðurberg í Hafnarfirði af skarið. Í dag eru 200 skólar af öllum skólastigum víðsvegar um landið þátttakendur í verkefninu.