Snorri Baldursson – Minningarorð

Snorri Baldursson, fyrrum formaður Landverndar.
Snorri Baldursson er fallinn frá. Landvernd syrgir góðan félaga, þakkar honum frá dýpstu hjartarótum fyrir allt sem hann lagði af mörkum til verndar íslenskrar náttúru og sendir fjölskyldu Snorra innilegar samúðarkveðjur.

Snorri Baldursson fyrrverandi formaður Landverndar er látinn.

Snorri sat í stjórn Landverndar á árunum 2015-2019 og gegndi formennsku árin 2015-2017. Undir hans stjórn voru mörg gagnleg verk unnin á vettvangi Landverndar. Hann beitti sér ötullega og af óbilandi kröftum, meðal annars fyrir því að náttúruvernd á vegum hins opinbera heyrði öll undir eina stofnun, fyrir samþykkt rammaáætlunar III og fyrir verndun víðerna Íslands, eins og Drangajökulssvæðisins, Vonarskarðs og hálendisins sem heild. 

Snorri var bæði góður fræðimaður og sérlega ritfær. Hann skrifaði skarpar, innihaldsríkar og vel rökstuddar umsagnir um náttúruverndarmál til stjórnvalda og ritaði margar greinar í blöð um mikilvægi náttúruverndar.

Snorri lét sig snemma náttúruvernd varða og réðst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur. Sem dæmi má nefna að árið 1985 skrifaði hann undir opið bréf fjölda líffræðinga þar sem hvalveiðum var mótmælt. Hann barðist ötullega gegn Kárahnjúkavirkjun og notaði öll tiltæk ráð til þess að efla Vatnajökulsþjóðgarð.

Snorri hafði óvenju sterka trú og sannfæringu fyrir gildi náttúruverndar. Hann vissi að náttúra Íslands er einstök, sönn og umbreytandi og að virði hennar fyrir þjóðina og heimsbyggðina, yrði ekki metið til fjár.

Sem formaður Landverndar steig Snorri opinberlega fram fyrir skjöldu í erfiðum málum og hlaut ósjaldan ósanngjarna gagnrýni fyrir, en einnig mikið og verðskuldað lof. Snorri hikaði heldur ekki við að taka upp penna öðrum til varnar, sérstaklega náttúruverndarfólki sem hafði lent illa í gagnrýni og útúrsnúningum hagsmunaafla sem andsnúin voru náttúruvernd.

Ritfærni Snorra varð öðrum oft til hjálpar. Eftir yfirlestur hans á textum annarra varð textinn hnífskarpur og boðskapurinn kristalstær, þannig að það kom jafnvel höfundi upprunalega textans á óvart. Hann var lítið fyrir orðagjálfur og sérlega flinkur við að eyða óþarfa málalengingum.

Þrátt fyrir alvarleg veikindi lét hann ekki deigan síga. Hann stofnaði ný náttúruverndarsamtök, Skrauta, sem nú þegar hafa náð miklum árangri með sitt fremsta baráttumál sem er verndun Vonarskarðs í Vatnajökulsþjóðgarði og einnig lauk hann við gerð merkrar bókar um Vatnajökulsþjóðgarð. Vinna Snorra við að koma Vatnajökulsþjóðgarði á heimsminjaskrá UNESCO er merkt afrek sem öll þjóðin og komandi kynslóðir munu njóta góðs af.

Snorri lifði eftir sannfæringu sinni og þess vegna náði hann miklum afköstum og árangri í þágu hugðarefna sinna. Bækurnar Lífríki Íslands, sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin, og hin nýútkomna Vatnajökulsþjóðgarður – gersemi á heimsvísu eru stórvirki sem bera vott um staðfestu og ástríðu höfundarins og festa hann í minni þjóðarinnar um ókomna tíð.

Náttúruverndar hafa misst öflugan og ósérhlífinn baráttumann. En þeir munu njóta skjóls af verkum hans lengi enn. Við yljum okkur einnig við minningar um góðar samverustundir og djúpar samræður – já og gleymum ekki hvernig hann skar niður textana okkar og betrumbætti.

Landvernd syrgir góðan félaga, þakkar honum frá dýpstu hjartarótum fyrir allt sem hann lagði af mörkum til verndar íslenskrar náttúru og sendir fjölskyldu Snorra innilegar samúðarkveðjur. Góða ferð á næsta stað kæri félagi og vinur.

Snorri Baldursson í góðum hópi við Þjófafoss við Búrfell við gróðursetningu.
Snorri í fríðum hópi fólks á aðalfundi Landverndar 2017 þar sem verkefninu Græðum Ísland var hleypt af stokkunum við Þjófafoss. Snorri ásamt Jill Esposit, Caitlin Wilson, Sveini Runólfssyni, Hreini Óskarssyni, Árna Bragasyni, Snæbirni Guðmundssyni og Guðmundi Inga Guðbrandssyni.
Mummi, Frú Vigdís Finnbogadóttir og Snorri Baldursson á aðalfundi Landverndar 2016
Guðmundur Ingi Guðbrandsson þáverandi framkvæmdastjóri, Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari Landverndar og Snorri Baldursson formaður Landverndar á aðalfundi samtakanna 2016.
Mummi, Bylgja og Snorri afhenda Jóni Gunnarssyni áskorun Landverndar um að færa ekki einstakar náttúruperlur í nýtingarflokk rammaáætlunar án umræðu.
Snorri ásamt Bylgju fyrrum starfsmanni Landverndar og Mumma fyrrum framkvæmdarstjóra afhenda Jóni Gunnarssyni áskorun um að falla frá breytingum á rammaáætlun á mótmælum 13. maí 2015.
Sigríður Bylgja og Snorri Baldursson í mótmælum gegn breytingum á rammaáætlun 13. maí 2015.
Fjallkonan og formaður Landvendar, málsvarar náttúrunnar á mótmælum 2015.
Stjórn Landverndar 2018.
Norðan Kamba - milli Kamba og Skaftár í Vatnajökulsþjóðgarði
Norðan Kamba - milli Kamba og Skaftár í Vatnajökulsþjóðgarði. Ljósmynd: Snorri Baldursson
Uxahryggir, grænn mosi og hraun. landvernd.is
Uxahryggir. Ljósmynd: Snorri Baldursson
Kýlingar í Friðlandi að Fjallabaki, hálendisþjóðgarður tryggir aðgengi og vernd náttúrunnar, landvernd.is
Kýlingar í Friðlandi að Fjallabaki, hálendisþjóðgarður tryggir aðgengi og vernd náttúrunnar. Ljósmynd: Snorri Baldursson

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd