Sprengisandslína og Sprengisandsvegur

Sprengisandur, landvernd.is
Þá vantar mikilvæg atriði inn í fyrirhugað mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu. Landvernd hefur gert þá kröfu að dragi Landsnet ekki til baka matsáætlun sína verði hið minnsta unnið mat á umhverfisáhrifum jarðstrengs yfir alla Sprengisandsleið en ekki eingöngu hluta hennar. Slíkt mat ætti að ná til hvoru tveggja, riðstraumsstrengs (AC) og jafnstraumsstrengs (DC).

Í október 2014 lögðu Landsnet hf. og Vegagerðin fram drög að matsáætlunum sínum vegna fyrirhugaðrar 220kV háspennulínu um Sprengisand og nýs uppbyggðs Sprengisandsvegar. Landvernd, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Ferðaklúbburinn 4×4 og SAMÚT (Samtök útivistarfélaga) sendu sameiginlegar athugasemdir við drögin í nóvember, þar sem samtökin kröfðust þess að hætt yrði við framkvæmdirnar og tillögurnar dregnar tilbaka.

Hálendi fortíðar?

Ljóst er að framkvæmdir Landsnets og Vegagerðarinnar myndu hafa mikil og óafturkræf áhrif á miðhálendið. Framkvæmdirnar myndu kljúfa víðerni hálendisins, valda umferðargný í stað öræfakyrrðar og bjóða upp á hættu á frekari „láglendisvæðingu“ hálendisins með uppbyggingu margskonar innviða og þjónustu á svæðinu. Framkvæmdum myndi fylgja umfangsmikið rask og óásættanleg áhrif á náttúru, landslag og víðerni en einnig skerða möguleika á útivist og ferðaþjónustu á hálendinu. Hálendið, eins og við þekkjum það í dag, myndi því tilheyra fortíðinni.

Áfangasigur: Vegagerðin fellur frá framkvæmdum að sinni

Ljóst er að Sprengisandslína og Sprengisandsvegur eru gríðarlega umdeild á meðal þjóðarinnar, eins og nýleg skoðanakönnun Gallup sýnir. Svo viðamiklar framkvæmdir þurfa því miklu dýpri og ítarlegri umræðu í samfélaginu. Þá skortir einnig umræðu í samfélaginu um fleiri valkosti en byggingu Sprengisandslínu og Sprengisandsvegar. Í apríl 2015 vannst áfangasigur í málinu þegar Vegagerðin ákvað að falla frá gerð umhverfismats Sprengisandsvegar að sinni, enda nýr Sprengisandsvegur ekki einu sinni á samgönguáætlun.

Lágmark að umhverfismeta jarðstreng

Sprengisandslína byggir á kerfisáætlun Landsnets hf. um framkvæmdir í flutningskerfi raforku hérlendis sem samþykkt var af stjórn fyrirtækisins í september 2014. Landvernd hefur stefnt Landsneti vegna áætlunarinnar þar sem að ekki var brugðist við meginathugasemdum samtakanna, t.d. hvað varðar grundvallarforsendur kerfisáætlunar og val á milli jarðstrengja og loftlína.

Þá vantar mikilvæg atriði inn í fyrirhugað mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu. Landvernd hefur gert þá kröfu að dragi Landsnet ekki til baka matsáætlun sína verði hið minnsta unnið mat á umhverfisáhrifum jarðstrengs yfir alla Sprengisandsleið en ekki eingöngu hluta hennar. Slíkt mat ætti að ná til hvoru tveggja, riðstraumsstrengs (AC) og jafnstraumsstrengs (DC).

Verndum hálendið fyrir komandi kynslóðir

Allir eru sammála um að miðhálendi Íslands býr yfir fágætum verðmætum. Þar er hægt að upplifa lítt snortna og ómanngerða náttúru og njóta einveru og kyrrðar í umhverfi sem náttúran sjálf hefur skapað. Það er hlutverk okkar allra að tryggja þessi grunngildi hálendisins þannig að við, gestir okkar og komandi kynslóðir fái notið þeirra.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd