Stærðarviðmiðum í rammaáætlun verður að breyta

Fossafjarkinn, Geitdalsvirkjun
Það þarf að fara fram á að allir sem virkja í þeim tilgangi að selja orkuna, þurfi að sæta niðurstöðu rammaáætlunar.

Nokkuð er um það að virkjanaaðilar geri tilraunir til þess að komast hjá rammaáætlun með því að byggja virkjanir rétt undir þeim stærðarmörkum sem falla undir hana. Þessu verður að bregðast við. Rammaáætlun er ætlað að veita faglegt mat á orkunýtingu og vernd landsvæða en hún þjónar ekki tilgangi sínum ef framkvæmdaraðilar komast ítrekað upp með að sneiða framhjá henni.

Framkvæmdaaðilar leita allra leiða til að komast framhjá rammaáætlun

Samkvæmt lögum eru viðmið til að virkjanakostur falli undir lög um orkunýtingu og vernd landssvæða; 10MW og því kynna framkvæmdaraðilar virkjanakosti upp á 9,9 MW þannig að þeir falli ekki undir lögin en stefna leynt og ljóst að stækkun virkjunarinnar og stilla áformum sínum þannig upp óháð raunverulegu afli virkjunarinnar. Þá geta virkjanaaðilar raskað landssvæðum sem eru mjög verðmæt með tilliti til náttúru- og menningarminja og spillt þeim umtalsvert.

Eftir „smá“virkjunina telst svæðið svo raskað, dregið hefur úr verndargildi þess og meiri líkur eru á að hægt verði að setja viðkomandi landssvæði í nýtingaflokk fyrir stórar virkjanir frekar en verndarflokk en ef svæðinu hefði ekki verið raskað. Hið svokallað smávirkjana ferli er því í raun blekkingarleikur.

Dæmi um smávirkjanir sem eru rétt undir mörkum og gætu eða hafa raskað verðmætum náttúru- og menningarminjum eru Brúarvirkjun, Hagavatnsvirkjun og virkjun Hverfisfljóts við Hnútu. Brúarvirkjun er svokölluð smávirkjun en ljóst er að um meiriháttar mannvirki er að ræða eins og sjá má á myndböndum frá framkvæmdatíma.

Hagavatnsvirkjun upp á 20 MW er í biðflokki rammaáætlunar 3 en Orkustofnun hefur veitt rannsóknarleyfi fyrir því að skoða virkjun upp á 9,9 MW. Þarna er um að ræða sömu framkvæmd, sömu umhverfisáhrif en framkvæmdaraðili reynir að komast hjá mati rammaáætlunar á virkjunarkostinum.

Verulega neikvæð umhverfisáhrif af svokölluðum „smávirkjunum“

Sama er að segja um Hnútuvirkjun. Í áliti Skipulagsstofnunar á þeirri framkvæmd segir: „Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun. Umfang fyrirhugaðar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um er að ræða framkvæmd sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.“

Það er ljóst að umhverfisáhrif af svokölluðum smávirkjunum geta verið veruleg. Landvernd telur stærðarviðmiðið bæði vera of hátt og misheppnað enda hafa virkjunaraðilar og Orkustofnun sýnt að þau reyna að víkja sér undan eðlilegum farvegi fyrir stærri virkjunarframkvæmdir með því að kalla þær smávirkjanir.

Hver ættu viðmiðin okkar að vera í staðinn?

Landsvæði eru misjöfn og náttúra þeirra hefur ólíkt verndargildi. Til þess að rammaáætlun þjóni tilgangi sínum þyrfti að gjörbreyta þessum viðmiðum og fara fram á að allir sem virkja í þeim tilgangi að selja orkuna, þurfi að sæta niðurstöðu rammaáætlunar.

Viðmiðin gætu verið fólgin í tilgangi orkuvinnslunnar. Þeir einu sem ættu hugsanlega að fá að standa utan við rammaáætlun eru þeir sem byggja litlar virkjanir til að sinna sérstaklega almennri orkuþörf. . Allir sem hafa það sem megin markmið að virkja til að selja orku inná grunnetið ættu að sæta mati í rammaáætlun, auk þess sem stærðarmörk, lægri en þau sem nú er miðað við, þurfa að vera í gildi.

Gleymum því ekki að því meira sem er gengið á landið, því verðmætari verða þau svæði sem eftir eru.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd