Stefnumót við Hjörleif sjötugan

Blábjörg, landvernd.is
Málþing laugardaginn 25. mars til heiðurs Hjörleifi Guttormssyni sjötugum.

Laugardaginn 25. mars n.k. verður haldið málþing í Reykjavík til heiðurs Hjörleifi Guttormssyni sem nýlega varð sjötugur. Málþingið stendur frá kl. 13:00 – 18:00 og fer fram í sal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6. Að málþinginu standa 11 útvistar- og náttúruverndarsamtök og vilja með því sýna Hjörleifi virðingu og þakklæti fyrir mikið og gott starf við að kynna náttúru landsins og í þágu umhverfis- og náttúruverndar.

Dagskrá málþingsins verður tvískipt. Fyrri hlutinn fjallar um óbyggðir Íslands í
nútíð og framtíð. Þar munu Árni Bragason forstöðumaður á Umhverfisstofnun, Guðmundur Páll ólafsson náttúrfræðingur og Andri Snær Magnason rithöfundur flytja erindi um þetta efni. Síðari hlutinn fjallar um alþjóðlegt samstarf og náttúruvernd á norðurslóðum. Um þau efni fjalla Skúli Skúlason rektor Hólaskóla, Árný ErlaSveinsbjörnsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Sigmar A. Steingrímsson sérfræðingur á Hafrannsóknarstofnun.

Á málþinginu verða sýndar stækkanir af nokkrum ljósmyndum Hjörleifs og brugðið verður upp fróðleik um störf hans á veggspjöldum.

Frá því að Hjörleifur kom heim frá háskólanámi í Þýskalandi árið 1963 hefur hann verið í forystu opinberrar umræðu um umhverfis- og náttúruvernd. Hann starfaði um tíma sem náttúrufræðingur á Austurlandi. Þar átti hann frumkvæði að því að stofna Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað, Náttúruverndarsamtök Austurlands og árið 1972 fyrsta fólkvanginn á Íslandi, en hann er við Neskaupsstað.

Hjörleifur sat lengi í Náttúruverndarráði og var um ára bil formaður nefndar sem stýrði uppbyggingu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Á Alþingi var Hjörleifur frumkvöðull við lagasmíð á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Hann átti drjúgan þátt i samningu náttúruverndarlaga sem sett voru árið 1999 og bættu mjög stöðu náttúruverndar og styrktu almannarétt. Undanfarin ár hefur Hjörleifur verið mikil virkur rithöfundur og tekið virkan þátt í umræðum um umhverfis og náttúruverndar mál.

Hjörleifur hefur fylgst með alþjóðlegri framvindu umhverfismála. Hann sótti fyrsta þing Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Stokkhólmi 1972. Hann sótti einnig ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992 og aftur í Jóhannesarborg 2002.

Vorið 2002 hlaut Hjörleifur viðurkenningu frjálsra félagasamtaka fyrir dýrmætt framlag til umhverfisverndar. Í umsögn dómnefndar sagði m.a. “Hjörleifur hefur lagt sig fram um að kynna náttúru og umhverfi landsins. Hann hefur opnað augu almennings fyrir íslenskri náttúru og lagt sitt af mörkum til að fólk kynnist landssvæðum sem áður voru almenningi óþekkt. Hann er höfundur margra bóka um umhverfismál og íslenska náttúrur og þekktur baráttumaður fyrir umhverfis- og náttúrvernd.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd