Stofnun kynslóðasjóðs fyrir mögulegan olíuarð

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Aðalfundur Landverndar ályktaði um stofnun kynslóðasjóðs fyrir mögulegan auðlindaarð af olíuvinnslu Íslendinga.

Aðalfundur Landverndar, haldinn 13. apríl 2013, ályktaði um stofnun kynslóðasjóðs fyrir mögulegan auðlindaarð af olíuvinnslu Íslendinga:

Aðalfundur Landverndar 2013 lýsir yfir óánægju með þá stefnu sem stjórnvöld hafa tekið í olíumálum en hvetur um leið fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi til að móta lög og reglur með þeim hætti að allur auðlindaarður af vinnslu jarðefnaeldsneytis verði varðveittur handa komandi kynslóðum.

Greinargerð
Nú þegar loftslag Jarðar tekur örum breytingum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að hefja leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í lögsögu Íslands. Á sama tíma vara vísindamenn við því að einungis megi brenna um fimmtungi af þekktum birgðum af olíu, gasi og kolum sem eftir eru í jarðlögum ef forða eigi mannkyninu frá alvarlegum afleiðingum öfgakenndrar loftslagshlýnunar.

 
Talið er að mannkynið geti tekist á við allt að 2°C hlýnun en með ærnum tilkostnaði og raski á samfélögum og náttúru. Til samanburðar er hlýnunin, sem nú þegar veldur þungum áhyggjum, 0,8°C. Alþjóðabankinn hefur varað við að loftslagið kunni að hitna um allt að 4°C til loka aldarinnar verði ekki dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og eyðingu skóga.
 

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu eykur á þennan fyrirsjáanlega loftslagsvanda og leggur þannig auknar byrðar á komandi kynslóðir. Það gengur þvert á fyrirheit um sjálfbæra þróun íslensks samfélags, en í þekktri skilgreiningu segir að þróun sé sjálfbær ef hún mætir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.

 

Talsverðar líkur eru á að komandi kynslóðir standi frammi fyrir flóknum og miklum vanda vegna hlýnandi loftslags. Þannig ríkir mikil óvissa um aflabrögð og verðmæti sjávarfangs vegna breytinga á lífríki hafsins í kjölfar hlýnunar og súrnunar sjávar. Þegar tímabundinni aukningu vatnsorku vegna bráðnunar jökla lýkur þarf að draga úr orkunotkun eða finna nýja orkugjafa með tilheyrandi kostnaði. Aðlögun að hækkun sjávarborðs og veðurfarsbreytingum verður fjárhagslegur baggi. Loks er líklegt að hamfarir af völdum loftslagsbreytinga muni leiða til verðhækkana á lífsnauðsynjum um heim allan.

Ef til þess kemur að Íslendingar hefji olíuvinnslu þrátt fyrir áðurnefnd varnaðarorð vísindamanna er mikilvægt að arður sem kann að skapast af vinnslu jarðefnaeldsneytis falli í hlut komandi kynslóða. Það myndi auðvelda þeim að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga sem núlifandi Íslendingar eiga þátt í að valda með mikilli notkun jarðefnaeldsneytis og fyrirhugaðri olíuleit- og vinnslu.

Lesa ályktun Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd