Hér að neðan er sá hluti hagspár Landsbankans sem fjallar um stóriðjuframkvæmdir á tímabilinu 2006 – 2015. Spánna í heild sinni má finna á tengli neðst á síðunni:
Að okkar mati má nánast ganga út frá því sem vísu að þær stóriðjuframkvæmdir sem nú er um það bil að ljúka séu ekki síðustu framkvæmdirnar á þessu sviði. Öll þrjú álfyrirtækin sem starfa á Íslandi hafa lýst yfir vilja til áframhaldandi uppbyggingar á sinni starfsemi hérlendis og eitt þeirra hefur nú þegar nánast fengið öll tilskilin leyfi. Á orkusviðinu hefur verið skrifað undir viljayfirlýsingar um afhendingu orku á ákveðnum tíma, þótt skuld-bindandi samningar liggi ekki fyrir. Að síðustu hafa stjórnmálamenn og heimamenn í þeim byggðum, utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem talað hefur verið um frekari stóriðjuframkvæmdir lýst yfir stuðningi við framkvæmdir af þessu tagi.
Framboð raforku og verð hennar ræður mestu um tímasetningar stórðiðjuframkvæmda og hvort af verkefnunum verður yfir höfuð. Landsvirkjun er mjög langt komin með undirbúning virkjana í neðri hluta Þjórsár, en ljóst er að orkufyrirtækin þurfa að virkja ný svæði til að hægt verði að útvega þá orku sem þarf í öll þau verkefni sem hér hafa verið nefnd. Nokkur seinagangur virðist vera á afgreiðslu umsókna orkufyrirtækjanna um rannsóknar- og virkjanaleyfi og því ríkir nokkur óvissa um mögu-legar tímasetningar verkefnanna.
Venjan við hagspárgerð hér á landi er sú að taka ekki tillit til stóriðjuframkvæmda fyrr en bindandi samningar liggja fyrir. Þessi aðferðafræði hefur reynst skynsamleg, enda hafa stóriðjumál oft verið lengi í opinberri umræðu áður en þau hafa orðið að veruleika. Skemmst er að minnast stóriðjunnar á Austurlandi. Þess eru einnig dæmi að þjóðin hafi beðið árum saman eftir stóriðju sem aldrei kom, samanber umræðuna um álver á Keilisnesi fyrir rúmum áratug. Í þessum tilfellum var um að ræða álframleiðendur sem höfðu takmarkaða þekkingu á Íslandi og íslenskum aðstæðum. Um var að ræða svokallaðar „green field„ fjárfestingar, sem þýðir að verksmiðjur eru byggðar frá grunni á nýrri stað-setningu, gjarnan í nýju landi. Öll þau nýju stóriðjuáform sem hér hafa verið nefnd flokkast undir svokallaðar „brown field„ fjárfestingar, þ.e. viðbætur við starfsemi sem nú þegar er til staðar. Alcan, Alcoa og Norðurál eru þegar komin með fótfestu hér á landi og því teljum við að full alvara liggi að baki yfirlýsingum þeirra um áhuga á frekari fjárfestingum.
Við teljum því ekki að spurningin sé hvort, heldur hvenær og hversu umfangsmiklar þessar fram-kvæmdir verða. Spá um áframhaldandi stóriðju-framkvæmdir er því meðal mikilvægra forsendna í hagspánni, en við höfum um nokkurt skeið tekið tillit til þessa í spám um peningamarkaðsvexti, ávöxtunarkröfu skuldabréfa og við verðmat á hlutabréfum. Við gerum ráð fyrir að afkastageta í áliðnaði verði aukin um ríflega 500 þúsund tonn á spátímabilinu og að orkuframleiðsla verði aukin um tæplega 900 MW.
Við reiknum með að stóriðjufjárfestingarnar nái hámarki á árinu 2010 í ríflega 6% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar má áætla að fjárfesting í stóriðju og orkuverum nemi um 10% af vergri landsframleiðslu á þessu ári. Við eigum því ekki von á að stóriðjufjárfestingarnar framundan verði sami sveifluvaki og þegar mest lét í núverandi uppsveiflu. Þó ber að hafa í huga að þar sem líkur eru á að stór hluti fjárfestinganna verði á höfuðborgarsvæðinu, kunna margföldunaráhrifin að verða meiri en ella.”