Á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins sagði sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson að íslenskur sjávarútvegur yrði að sýna vilja til að taka af ábyrgð á friðun viðkvæmra hafsvæða. Hann tilkynnti jafnframt þá ákvörðun að friða 5 svæði fyrir Suðurlandi sem eru alls um 80 ferkílómetrar fyrir öllum veiðum nema uppsjávarveiðum í hringnót og flottroll. Ráðherra sagði að þessi ákvörðun væri til marks um festu og framsýni til að varðveita líffræðilega fjölbreytni hafsins til framtíðar.
Landvernd hefur undanfarin ár ítrekað bent á mikilvægi þess að rannsaka áhrif veiðarfæra á hafsbotninn og vernda þau svæði þar sem hætta er á eyðilegginu. Landvernd þekkir ekki dæmi þess að tilgreind svæði á hafsbotni hafi áður verið vernduð gegn tilteknum veiðarfærum sem taldin eru geta valdið skaða. Ákvörðun ráðherra kann því að marka tímamót í náttúruvernd á Íslandi og undirstrikar að náttúruvernd er forsenda sjáfbærra fiskveiða.
Stjórn Landverndar telur aðkallandi að stjórnvöld loki svæðum þar sem líf á hafsbotni er talið í hættu vegna notkunnar botnlægra veiðarfæra. Aðeins með þeim hætti verður hægt að tryggja viðgang fiskveiða til lengri tíma litið og stuðla að sjálfbærri þróun. Auka þarf rannsóknir til að greina þau svæði sem kunna að vera í hættu.
Bréf Landverndar til sjávarútvegsráðherra frá 30. september s.l.
Sjávarútvegsráðherra
Hr. Einar Kristinn Guðfinnsson
Skúlagötu 4
101 Reykjavík
30. september 2005
Stjórn Landverndar hefur kynnt sér skýrslu nefndar sem skipuð var að sjávarútvegsráðherra til að kanna forsendur friðunar viðkvæmra hafsvæða.
Nefndin kemst m.a. að því að stór hluti þeirra kóralsvæða sem þekkt voru á landgrunni Íslands á áttunda og níunda áratug síðustu aldar séu horfin. Þá bendir nefndin á að lífríki í kóralsvæðum getur búið yfir um þrisvar sinnum meiri líffræðilegri fjölbreytni en nærliggjandi setbotnar og því mikilvægt að komið verði í veg fyrir frekari hnignun kóralsvæða við landið. Í skýrslunni kemur fram að botnvörpuveiðar hafi verið helsta ástæða fyrir eyðingu kórala.
Nefndin gerir þá tillögu að þrjú svæði, samtals 73 km2 að flatarmáli, verði strax friðuð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu á kórölum og til að stuðla að endurreisn þeirra. Þá leggur nefndin til að frekari rannsóknir verði gerðar til að auka þekkingu á viðkvæmum hafsvæðum og bæta forsendur fyrir frekari stefnumótun og aðgerðum.
Nefndin skoðaði ekki eingöngu kóralsvæði heldur einnig svampasamfélög, kóralþörungalög og háhitasvæði í sjó. Það er sameiginlegt þessum svæðum að þau búa yfir fjölbreytni og aðstæðum sem geta stuðlað að viðgangi fiskistofna og því nauðsynlegt að sýna aðgát við nýtingu þeirra.
Verndun hafsins er eitt af þeim viðfangsefnum sem Landvernd lætur sig varða. Þannig var á aðalfundi samtakanna árið 1999 fjallað um áhrif veiðarfæra á sjávarbotn og fundurinn beindi þeim tilmælum til stjórnvalda að efla rannsóknir um áhrif veiðarfæra á sjávarbotn. Fundurinn taldi mikilvægt að upplýsa hvar kunni að leynast mikilvæg búsvæði á hafsbotni sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir raski. Þessari ályktun var komið á framfæri við Hafrannsóknastofnun.
Nú virðast rannsóknir hafa staðfest þær áhyggjur sem þá voru uppi um að veiðar með botnvörpur væru að spilla lífsskilyrðum í hafinu við Ísland á þeim svæðum sem búa yfir kórölum og svampasamfélögum. Stjórn Landverndar telur brýnt að stjórnvöld fari að tillögum nefndarinnar hvað varðar lokun svæða, frekari rannsóknir og breytingar á lögum. Aðeins með þeim hætti verður hægt að tryggja viðgang fiskveiða til lengri tíma litið og stuðla að sjálfbærri þróun.
Að lokum vil ég nota tækifærið til að óska nýjum sjávarútvegsráðherra heilla í starfi og óska eftir góðum og uppbyggilegum samskiptum við hann og ráðuneytið um málefni hafsins. Til fróðleiks fylgir hér bæklingur um Bláfánann, sem er eitt verkefna Landverndar og hefur þann tilgang að efla verndum hafs og stranda.
F.h. stjórnar Landverndar
Virðingarfyllst,
Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri