Fuglalíf og strandhreinsun

Gæta þarf að dýra- og fuglalífi við skipulagningu strandhreinsana, landvernd.is
Gæta þarf að dýra- og fuglalífi við skipulagningu strandhreinsana, landvernd.is

Gæta þarf að dýra- og fuglalífi við skipulagningu strandhreinsana.

Ákjósanlegur tími til að skipuleggja strandhreinsun er á haustin og vorin. Ef langt er liðið á vorið þarf þó að gæta þess að hreinsa í sátt og samlyndi við fugla- og dýralíf á svæðinu. Ekki skal hreinsa strendur á varptíma enda getur það spillt varpi.

Hafið í huga að þó ströndin sjálf virðist vera án fuglavarps geta viðkvæm varpsvæði verið í nágrenninu.

Í byrjun maí eru einhverjar fuglategundir farnar að verpa eða undirbúa varp á eða við strandlengjuna. Það er því afar mikilvægt að fara varlega við strandhreinsun á þessum tíma og velja svæði með tilliti til fugla og annars lífríkis.

Algengar spurningar

Hvenær er varptími fugla?

Fuglavarp nær hámarki í seinni hluta maí en sumir fuglar verpa jafnan fyrr. Tjaldur verpir til að mynda oft í kringum mánaðamótin apríl-maí og svartbakur snemma í maí. Aðrar tegundir sem oft eru algengar við ströndina, t.d. sandlóa, lóuþræll og kría, hefja yfirleitt varp seinna í maí.

Hvað á að gera ef það er fuglavarp í fjörunni?

Ef það finnast hreiður í fjörunni þá skal finna annan stað eða annan tíma til að hreinsa fjöruna. Fuglar á Íslandi eru nær allir friðaðir fyrir truflun og veiðum á varptíma.

Hvernig þekkir maður varpstaði?

Ef fugl í fjörunni, eða nágrenni hennar, sýnir merki um streitu eða árásargirni eða flýgur ítrekað yfir svæðið þá er líklegt að hreiður sé í nágrenninu sem fuglinn er að vernda. Hafið augun opin og fylgist með fuglalífinu í nágrenni fjörunnar.

Hvar verpa fuglar?

Margir fuglar verpa á smáeyjum, strandsvæðum og afskekktum stöðum þar sem er gott skjól. Hafið í huga að fuglsegg eru oft í felulitum og erfitt að finna þau og því mikilvægt að hafa augun opin fyrir því. Það er ekki æskilegt að hafa hunda með í strandhreinsanir en ef þeir eru með í för þá þurfa þeir að vera í bandi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd