Straumhvörf í umhverfismálum

Umhverfismál hafa færst frá því að vera sérstakt mál á dagskrá - yfir í að vera efnahagsmál, heilbrigðismál, mál jöfnuðar, atvinnumál og eiginlega öll þau mál sem okkur dettur í hug.
Alþingi og sveitarstjórnum ber skylda til að gera umhverfisvænan lífsstíl ódýrari, auðveldari og eftirsóknarverðari.

Ég veit ekki hversu oft á þessu ári ég hef verið beðin um að taka hreina afstöðu með eða á móti einhverju. Það hafa verið vindmyllur, pappírsumbúðir, flokkun, kjötneysla og hvaðeina sem fólki er hugleikið. Ég skynja nefnilega mikinn meðbyr. Almenningi er annt um náttúruna og kerfi plánetunnar sem gera hana lífvænlega fyrir mannfólk og öll vilja leggja sitt af mörkum. Á sama tíma hafa umhverfismálin aldrei verið jafn flókin.

Því hef ég ekki getað svarað þessum beiðnum með einróma dómi. Það er ekki hægt að flokka hluti í gott og slæmt frekar en hægt er að setja fólk í kassa, góða og vonda fólkið, þótt það sé oft reynt. Þar af leiðandi er erfiðara að fylkjast um lausnir. Stjórnvöld sjálf keyra á mikilli einföldun en er fyrirmunað að taka til raunverulegra og fjármagnaðra aðgerða. Í staðinn er ábyrgðinni varpað ýmist á einstaklinginn eða önnur lönd og bent á smæð okkar í hnattrænu samhengi.

Almenningur þarf að geta skilið kjarnann frá hisminu og áttað sig á því að þingið og sveitarstjórnir eru kjörin til að vinna fyrir fólkið. Þeim ber skylda til þess að gera umhverfisvænan lífstíl ódýrari, auðveldari og eftirsóknarverðari heldur en lífstíllinn sem við lifum nú, lífstíllinn sem byggir á því að tekið sé af auðlindum jarðar til þess að viðhalda endalausum vexti á meðan úrgangurinn er ýmist brenndur eða urðaður. Að sama skapi er okkur fyrirmunað að horfast í augu við það að auðlindir jarðar eru takmarkaðar og endalaus hagvöxtur er ómögulegur.

En það eru til fleiri leiðir til þess að mæla vöxt. Vöxtur í menntun, vöxtur í vellíðan, vöxtur í líffræðilegum fjölbreytileika. Tímarnir breytast og mennirnir með og þar af leiðandi viðmið okkar um velgengni, í einu orði „hagkerfið”.

Þegar ég tala um kerfisbreytingar, frá kerfi þar sem markmiðið er endalaus vöxtur, í kerfi sem hefur það að markmiði að uppfylla þarfir alls fólks á sjálfbæran hátt, er stundum eins og ég sé að ræða tímaflakk eða framtíð mannkyns á Venus. En kerfisbreytingar eru ekki aðeins mögulegar, heldur eru þær óumflýjanlegar. Á einhverjum tímapunkti mun mannkynið hafa gengið of langt og það verður einfaldlega ekki lengur mögulegt að stunda hið línulega hagkerfi. Því lengur sem við bíðum því dýrara verður það fyrir okkur og almenningur kemur til með að þurfa að standa straum af kostnaðinum sem af hlýst. Það er ég handviss um.

Þess vegna eru kerfisbreytingarnar almannahagsmunir. Þess vegna eiga kjörnir fulltrúar sem starfa í almannaþágu að stefna í þessa átt.

Það er nákvæmlega þess vegna sem ég tel að almannasamtök á borð við Landvernd séu í lykilstöðu til að þrýsta þessum sjónarmiðum áfram. Hlutir eru almennt ekki algóðir eða slæmir. En mannkynið er að gera allt of mikið af sumu, og langt frá því nóg af öðru og því þarf að breyta. Til þess þarf róttæka og hugrakka pólitíkusa og almenning með.

Síðustu ár hafa orðið straumhvörf í umhverfismálum. Þau hafa færst frá því að vera sérstakt mál á dagskrá yfir í að vera efnahagsmál, heilbrigðismál, mál jöfnuðar, atvinnumál og eiginlega öll þau mál sem okkur dettur í hug. Það er flókið, en það er líka spennandi að lifa á tímum straumhvarfa.

Greinin birtist fyrst í ársriti Landverndar 2023 – 2024

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd