Sveitastjórn fari að áliti Skipulagsstofnunar

Efnistaka í Ingólfsfjalli, Ingólfsfjall, landvernd.is
Stjórn Landverndar tekur undir það álit Skipulagsstofnunar að efnistaka upp á Ingólfsfjalli sé ekki ásættanleg og hvetur sveitarfélagið Ölfus að fara að vel rökstuddu áliti stofnunarinnar og taka tillit til umhverfissjónarmiða.

Stjórn Landverndar tekur undir þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að umhverfisáhrif námuvinnslu upp á Ingólfsfjalli séu óásættanleg.

Ingólfsfjall er mikilvægt kennileiti á Suðurlandi. Fjallið er áhugaverð jarðmyndun sem er einkennandi fyrir Ísland. Ingólfsfjall hefur menningarsögulegt gildi þar sem það ber nafn fyrsta landsnámsmannsins. Ingólfsfjall er vinsælt til fjallgöngu og er mikilvægt vatnsból.

Efnistaka í fjallshlíðum Ingólfsfjalls hefur lengi verið umdeild vegna sjónmengunar og verið til vitnis um þá staðreynd að stjórnvöld skortir úrræði til að ná tökum á þeim umhverfisvanda sem fylgir stjórnlausri efnistöku í gömlum námum.

Á árinu 2004 hófst efnistaka uppi á Ingólfsfjalli undir því yfirskyni að um sömu námu væri að ræða og námuna í hlíðum Ingólfsfjalls. Þetta malarnám hefur verið stöðvað og framhald þess ræðst af niðurstöðu Skipulagsstofnunar og ákvörðun sveitarstjórnar.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar nú staðfestir það álit stjórnar Landverndar að efnistaka upp á Ingólfsfjalli hefði víðtæk umhverfisáhrif. Stjórnin hvetur viðkomandi sveitarstjórn að taka ábyrga afstöðu í þessu máli og fara að vel rökstuddu áliti Skipulagsstofnunar.

Stjórn Landverndar telur brýnt að sveitastjórnir á Suðurlandi kanni valkosti til efnistöku á svæðinu til að mæta mikill þörf fyrir byggingarefni í landshlutanum. Velja ber efnistökustaði sem valda minni umhverfisáhrifum en nám upp á Ingólfsfjalli, jafnvel þó það kunni að kosta meira. Ef tekið væri tillit til umhverfiskostnaðar við malarnám á Ingólfsfjalli væri raunverulegur kostnaður vegna malarnáms þar mun meiri en fram kemur í bókhaldi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd