Sýnum fyrirhyggju – metum áhrif stafafuru og sitkagrenis

Birki bindur koltvíoxíð og endurheimt birkiskóga er mikilvæg loftslagsaðgerð. Ljósmynd: Áskell Þórisson. landvernd.is
Tryggvi Felixson skrifar um ágengar tegundir.

Framandi tegundir í skógrækt, sýnum fyrirhyggju – metum áhrif stafafuru og sitkagrenis

Ein af fimm helstu ógnum við líffræðilega fjölbreytni í heiminum í dag er ágengar framandi lífverur. Þetta kemur fram í mjög svartri og umfangsmikilli skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa (IPBES) um stöðu vistkerfa sem kom út árið 2019 .
Samkvæmt 65. gr. náttúruverndarlaga skal sá sem ber ábyrgð á dreifingu lifandi lífvera gæta sérstakrar varúðar til að koma í veg fyrir að dreifingin dragi úr líffræðilegri fjölbreytni lífríkisins sem fyrir er.
Hafa skal í huga að það er langeinfaldast og langódýrast að eiga við mögulega ágengar tegundir áður en þær fara í veldisvöxt og auðvitað væri langbest að flytja mögulega ágengar tegundir yfirhöfuð ekki á milli landa. Hafa ber varúðarregluna í huga og horfa til nágrannalanda sem hafa ratað í vandræði með ágengar tegundir í vistkerfum sínum.

Tilfinningaþrunginn ágreiningur

Ljóst er að uppi eru mjög mismunandi skoðanir á því hvort gróðursetning og dreifing nokkurra trjátegunda hér á landi muni draga úr líffræðilegri fjölbreytni og skaða þannig okkar viðkvæmu náttúru þegar fram líða stundir. Ágreiningurinn er ekki aðeins bundinn við einstaklinga sem hafa áhuga á náttúruvernd og landbótum eða fræðimenn á sviði skógræktar og líffræði, heldur nær hann einnig til stofnana ríkisins. Ágreiningurinn hvílir sem skuggi á umræðu um uppgræðslu og endurheimt vistkerfa.
Ég er sjálfur áhugamaður um skógrækt og landgræðslu, hef gróðursett framandi trjátegundir undanfarna áratugi og talið þær afar gagnlegar. Með vaxandi þekkingu um hugsanleg neikvæð áhrif þeirra finnst mér nauðsynlegt að staldrað sé við til að hlusta á raddir aðila sem hvað mesta þekkingu hafa á náttúru landsins. Ég skil að þetta viðhorf valdi tilfinningalegu uppnámi hjá ræktunarfólki sem kann að meta kosti margra framandi tegunda. En getum við leyft okkur að hunsa vísindin?

Brýnt að fá leiðbeiningar

Áform um endurheimt vistkerfa eru umfangsmeiri nú en áður og meira fjármagni er ráðstafað úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til þessa mikilvæga viðfangsefnis, bæði til að binda kolefni og bæta landkosti. Þetta er eitt áhersluatriða í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Við þessa endurheimt er áformað að nýta fjölmargar erlendar tegundir, til að mynda bæði stafafuru og sitkagreni, sem hafa reynst öflugar tegundir til skógræktar á Íslandi.
Aldrei hefur því verið brýnna að afla skýrra leiðbeininga um notkun framandi tegunda sem hugsanlega eru ágengar, leiðbeininga sem byggja á bestu vísindalegri þekkingu og varúðarreglunni. Hér þarf að beita vísindalegri þekkingu og allir málsaðilar þurfa að koma upp úr skotgröfunum. Leiðarstefið ætti að vera opið og fordómalaust samtal um líffræðilega fjölbreytni.
Þetta er viðfangsefni sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér að leysa. Í nýlegum stjórnarsáttmála er áréttað að endurskoða þurfi stefnu um líffræðilega fölbreytni.

Beitum vísindunum

Ísland á aðild að gagnagrunninum NOBANIS sem var stofnaður fyrir tilstuðlan Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar er sitkagreni skilgreint sem ágeng tegund í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og mögulega ágeng tegund á Írlandi. Stafafuru hefur verið lýst sem einni ágengustu trjátegund jarðar og í NOBANIS er hún er skilgreind sem framandi ágeng tegund í Danmörku og Svíþjóð og sem mögulega ágeng tegund á Írlandi, Noregi og á Íslandi. Ýmsar aðrar rannsóknir og reglur sem beitt er erlendis styðja þá tilgátu að framangreindar tegundir geti verið ágengar. Ný rannsókn Pawel Wasowicz grasfræðings hjá Náttúrufræðistofnun ber að sama brunni.

Leysum ágreining

Stjórn Landverndar telur, að í ljósi þess að fram hafa komið rökstuddar ábendingar um að stafafura og sitkagreni kunni mögulega að verða ágengar í íslenskri náttúru, sé bæði gagnlegt og nauðsynlegt að setja fram leiðbeinandi reglur um notkun þeirra.
Stjórn Landverndar hefur því sent erindi til stjórnvalda með ósk um að þau beiti sér fyrir því að stafafura og sitkagreni, verði tekin til umfjöllunar og mats hjá sérfræðinganefnd um innflutning og ræktun útlendra plöntutegunda og hjá Umhverfisstofnun. Jafnframt er mælst til þess að nefndin greini hvort tilefni sé til að setja skilyrði fyrir ræktun stafafuru og sitkagrenis og í kjölfarið vinna leiðbeinandi reglur um notkun þeirra.
Við erum sannfærð um að viðfangsefnið sé vel leysanlegt. Yfirveguð ákvörðun sem byggð er á vísindum er lykilinn að ásættanlegri lausn fyrir alla aðila.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu, í desember 2021.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd