Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands skrifar
Allt frá stofnun Ferðafélags Íslands (FÍ) árið 1927 hefur markmið félagsins verið að hvetja Íslendinga til ferðalaga um eigið land og greiða fyrir þeim. FÍ hefur jafnframt lagt áherslu á miðlun þekkingar á náttúrunni og að fræða þátttakendur í ferðum félagsins og allan almenning um náttúru landsins. Félagið hefur því leitast við að standa vörð um möguleika fólks á að ferðast um landið og njóta þess sem náttúra Íslands hefur uppá að bjóða. FÍ telur að stofnun þjóðgarða og friðlýsingar í tengslum við þá sé mikilvæg leið til að tryggja að hin einstaka náttúra landsins fái staðið óspillt fyrir komandi kynslóðir að njóta. Á sama hátt er mikilvægt að þær reglur sem munu gilda um dvöl og för í þjóðgörðum séu til þess fallnar að tryggja rétt almennings til að ferðast um landið og njóta útivistar þar. FÍ telur framlagt frumvarp til laga um hálendisþjóðgarð jákvætt framlag til náttúruverndar og útivistar.
Stjórn Ferðafélags Íslands hvetur til þess að stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins verði unnin í víðtæku samráði við ferða- og útivistarfélög, sveitarfélög og aðra hagaðila sem starfað hafa lengi, jafnvel áratugi, innan fyrirhugaðra þjóðgarðsmarka. Taka þarf skýrt fram í lagatexta um þjóðgarðinn að rekstraraðilar sem eiga og reka skála eða aðrar sambærilega fasteignir á fyrirhuguðu þjóðgarðssvæði, haldi áfram réttindum sínum innan hins fyrirhugaða þjóðgarðssvæðis.
Tilgangur með stofun þjóðgarðs á hálendi Íslands er eingöngu tvíþættur. Annars vegar að vernda sérstæða náttúru og sögu svæðisins. Hins vegar að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta miðhálendisins ásamt því að tryggja sem best aðgengi að honum.
Alls bárust yfir 160 umsagnir um frumvarp til laga um stofnun hálendisþjóðgarðs til Umhverfisráðuneytis. Fjölmargar umsagnir eru neikvæðar og gerðar eru miklar athugasemdir við frumvarpið um þjóðgarðinn. Mikilvægt er að við jafnt stórt mál og stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands ríki almenn og breið sátt á meðal þjóðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að bregaðst við athugasemdum um frumvarpið sem borist hafa. Til að sú vinna sem þegar hefur verið unnin í málinu glatist ekki þá væri einn möguleiki í stöðunni, að taka smærri skref og í lengri áföngum. Vatnajökulsþjóðgarður hefur þurft 10 – 12 ár til að slíta barnsskónum. Að sama skapi er eðlilegt að nýr stór þjóðgarður á hálendinu þurfi 10 – 12 ár til að mótast og þróast. Um leið og gerðar eru málamiðlanir þá þurfum við öll að skilja að leikreglur um náttúruvernd og umferð almennings eru nauðsynlegar og eiga að vera í þágu náttúrunnar.
Það eru án efa gríðarleg verðmæti fyrir land og þjóð til framtíðar að vernda náttúru á hálendi Íslands. Megi alþingi Íslendinga finna bestu lausnina á þessu áhugaverða og krefjandi verkefni.
Páll Guðmundsson
Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands