Hvað eru verðmæti?
Það hvað við metum til verðmæta er mismunandi manna á milli. Sem betur fer þá eigum við tól sem búið er að þróa og sammælast um að sé góð til að meta hvaða virkjanaframkvæmdir skuli alls ekki ráðast í og hvaða virkjanahugmyndir geti farið áfram í frekara leyfisveitingaferli.
Aðferðarfræðin heitir Rammaáætlun og hún hefur það hlutverk að flokka í verndarflokk þær virkjanahugmyndir þar sem náttúran er verðmætari ósnortin en virkjuð á meðan þær sem eru metnar hagkvæmari eru settar í nýtingarflokk. Þá hefst hið hefðbundna leyfisveitingarferli og þurfa þessar virkjanir, þrátt fyrir að vera í nýtingarflokki, að standast aðra löggjöf um umhverfismat, mengunarvarnir og fleira sem eru varnaglar umhverfi og samfélagi til handa.
Norðlingaölduveita var á sínum tíma flokkuð í verndarflokk vegna áhrifa sinna á Þjórsárver. Kjalölduveita var svo flokkuð í vernd af faghópi 3. áfanga rammaáætlunar á þeim forsendum að framkvæmdirnar væru svo líkar fyrrnefndri Norðlingaölduveitu og áhrifin álíka, að hægt væri að flokka hugmyndina strax í verndarflokk. Orðrétt segir:
„Þrátt fyrir að nafn virkjunarkostsins sé annað, vatnsborð lónsins sé lægra, lónið minna og mannvirki neðar í farveginum hafa framkvæmdirnar áhrif á sama landsvæði og því hefur þessi breytta útfærsla virkjunarkostsins ekki áhrif á þessar grunnforsendur flokkunarinnar.“
Ósamræmi á milli ára
Í pólitískum hrærigraut og hrossakaupum síðustu ríkisstjórnar var virkjunin færð í biðflokk á ný, og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis leggur nú til að halda henni þar áfram, þvert á álit fagráðsins.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði í ræðustól Alþingis að um væri að ræða hagkvæmustu virkjun á Íslandi. Ef virkjunin væri svona hagkvæm þá hefði hún verið flokkuð í nýtingarflokk. Ráðherrann gleymir að faghópur rammaáætlunar er einmitt að meta fórnarkostnað á móti ávinningi í fleiru en peningum. Fórnarkostnaðurinn er ekki síst óafturkræft rask á hjarta landsins, og því hefur hugmyndin þegar verið metin óhagkvæm.
Fullyrðingar um hagkvæmni mega ekki gleyma því að auður okkar er metinn í öðru og meira en fjármagni. Mannauður er ekki síður mikilvægur og svo er það öll verðmætin sem felast í ósnortinni náttúru.
Grein má finna hér á Vísi.
Höfundur er Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar.