Til hamingju með afmælið Vigdís

Við í Landvernd óskum Vigdísi Finnbogadóttur innilega til hamingju með 95 ára afmælið í dag 15. apríl 2025.

Í ávarpi sínu í tilefni dagsins óskar Vigdís þess að þjóðin beri gæfu til þess að standa vörð um náttúru landsins og íslenska tungu um ókomin ár. Þetta kemur fram á vef morgunblaðsins en morgunblaðið gaf einnig út sérrit með morgunblaðinu í tilefni dagsins þar sem Vig­dís fær kveðjur frá ýmsum aðilum, forseta Íslands, forsætisráðherra og öðrum sem til hennar þekkja. Þar á meðal skrifaði Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdarstjóri Landverndar, kveðju frá félögum í Landvernd.

Við tökum undir orð Vigdísar í dag og deilum með ykkur kveðju Landverndar í heild hér að neðan:

„Hafa verður  náttúruvernd í heiðri allar stundir“

Þessi orð mælti Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands á fimmtíu ára afmæli Landverndar. Vigdís hefur verið verndari Landverndar í nærri aldarfjórðung, frá því 2002 og er enn. Félagar og allt fólk sem lætur sig náttúru og umhverfi varða, mun aldrei fá fullþakkað Vigdísi stuðninginn sem hún hefur veitt þjóðinni til að verja það sem okkur öllum er mikilvægast, sjálfa náttúruna.

Graham Paul sendiherra Frakklands á Íslandi sagði á níræðisafmæli Vigdísar, „við hyllum einstaka konu, elskaða og dáða langt úr fyrir landamæri Íslands.“ Sendiherrann fór í sömu andránni yfir baráttuna fyrir náttúrunni og baráttuna fyrir réttindum kvenna. Það á vel við enda tengjast náttúruvernd og jafnréttisbarátta órjúfanlegum böndum. „það er ekki tilviljun að Ísland er fremst þjóða á sviði jafnréttis kynjanna og litið til þess sem fyrirmyndar. Þá hefur Vigdís haldið á lofti íslenskri náttúru og villtri fegurð hennar og átt þátt í að vekja heiminn til vitundar um umhverfis- og loftslagsmál, brýnustu viðfangsefni 21. aldar.“

Síðast á þessu ári í kjölfar sjónvarpsþátta um Vigdísi rifjaði Landvernd upp brot úr boðskap verndara síns, við embættistöku forseta árið 1988. Hvert orð úr setningarræðu Vigdísar Finnbogadóttur forseta Íslands sem flutt var á Alþingi Íslendinga á jafn vel við í dag. Eða enn betur.

„Alla tíð verðum við að minnast þess að landið sem við höfum tekið í arf er aðeins eign okkar skamma stund. Okkur ber skylda til að skila því í hendur afkomenda okkar, ekki aðeins jafngóðu heldur enn betra en það var þegar við tókum við því.“

Ummæli sem þessi voru merkileg og fágæt úr munni þjóðhöfðingja inn í tíðarandann fyrir 37 árum. Þá horfði forystufólk oft meira til stórra framkvæmda en náttúruverndar þegar það vildi vinna þjóð sinni gagn, enda áherslur aðrar þá. En sagan endurtekur sig og því er einmitt gott að horfa í áherslur okkar fólks, eins og Vigdísar Finnbogadóttur, til að ná tengingu við söguna og skilja stöðu okkar á þeim tímum sem framundan eru. Vigdís er óvenjulega framsýn og talaði af öryggi og innsæi um framtíðarhorfur í málum sem nú er óumdeilt að skipta mestu og eru verndun náttúru, lífríkis, vistkerfa og loftslags. Land, þjóð og tunga voru hennar mál. Því er vert að rifja upp orð Vigdísar um hálendið fyrir nokkrum árum.

„Hálendið á Íslandi á auðvitað að verða að þjóðgarði. Þjóðgarðar eru þekktir út um allan heim og ef farið er að spilla þeim þá eru margir sem koma til með að mótmæla, ekki aðeins þjóðin sjálf heldur fólk úti í heimi sem ekki vill eyðileggja jörðina. Ég bara bíð eftir því að það verði sem allra fyrst samþykkt að gera hálendið að þjóðgarði.“ 

Enn hefur ósk Vigdísar um hálendisþjóðgarð ekki orðið að veruleika. En vonandi styttist í það. Stuðningur og aðhald frá fólki alls staðar að sem ekki vill eyðileggja jörðina er hluti af vitundarvakningu í náttúruvernd og vernd ósnortinna víðerna og hálendisins okkar. Fólk kemur til að mótmæla og einmitt það gerði Vigdís oftar en einu sinni. Í frægri göngu með Ómari Ragnarssyni, fyrir hálendið og gegn Kárahnjúkavirkjun og þegar hún lagði sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni um Þjórsárver, hjarta landsins á miðhálendinu uppi við Hofsjökul. En Vigdís Finnbogadóttir gerði margt fleira. Hún ræktaði garðinn okkar allra, plantaði trjám víða um land í ferðum sínum í Vinaskógi og Vigdísarlundum og blés fólki baráttuanda í brjóst til að standa vörð um náttúruna en líka að auðga hana og bæta með ræktun og gróðursetningu fyrir kynslóðir  framtíðarinnar. Henni voru landgræðsla og skógrækt hugleikin og þegar hún plantaði birkitrjám í ferðum sínum, var eitt fyrir drengi, annað fyrir stúlkur og þriðja tréð var fyrir óbornar kynslóðir.

Orð og gjörðir Vigdísar hafa eflt vitund og skilning á umhverfisvernd, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim. Að slíkur forseti sé og hafi lengi verið verndari samtaka eins og Landverndar er mikill heiður. Félagar í Landvernd vilja á þessum tímamótum óska Vigdísi allra heilla, þakka af hjarta fyrir samfylgdina fram til þessa dags og sýna henni þakklætisvott, með því að lofa að hafa náttúruvernd í heiðri allar stundir.

Bestu afmæliskveðjur frá félögum í  Landvernd.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd