Verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd er ætlað ungu fólki og snýst um að kynna sér umhverfismál og miðla upplýsingum til almennings með fjölbreyttum leiðum. Tíu verkefni komust í undanúrslit árið 2020. Verkefnin voru af ólíkum toga og komu frá framhaldsskólum víðsvegar af landinu. Verkefnið sem hreppti annað sætið ber heitið „Congratulations humanity“ eða „Til hamingju mannkyn!“.
Til hamingju mannkyn! er ljósmynd eftir Ásdísi Rós Þórisdóttur, 22 ára nemanda í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hún fékk hugmyndina með því að líta vel í kringum sig. Gefum Ásdísi orðið:
„Rusl er allstaðar, það kemur frá öllu sem við framleiðum og öllu sem við neytum. Ruslið er eins og kaka, hún veitir okkur skammtíma hamingju en er ekki góð fyrir okkur“.
Ljósmyndin Congratulations humanity eftir Ásdísi Rós Þórisdóttur.
Smelltu hér til þess að sjá verðlaunin sem Ásdís hlaut fyrir annað sætið!
Fjölmiðladómnefndin árið 2020 var mjög hrifin af ljósmyndinni og hafði þetta um hana að segja:
Myndin segir meira en þúsund orð og hittir okkurneytendur fyrir, sem eru fastir í viðjum umbúðarsamfélagsins. Myndin er líka sterk gagnrýni á stórfyrirtæki og hvernig þau standa fyrir umhverfisskaðandi iðnaði um allan heim. Listaverk sem að fær fólk sannarlega til að hugsa.
Auk þess að hreppa annað sætið, þá sigraði Ásdís einnig í flokkinum „Val unga fólksins“. Þrjú ungliðasamtök á Íslandi standa fyrir valinu; Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta. Þeirra umsögn um ljósmyndina er eftirfarandi:
Kakan segir okkur með kaldhæðninni og húmor að vopni hvernig okkar hversdagslega neysluhegðum kemur verst niður á okkur sjálfum.
Hefur þú áhuga á því að hafa ljósmyndina heima í stofu?
Hægt er að leigja hana í Artóteki Norræna hússins.