Tillaga til þingsályktunar um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Lögð hefur verið fram tillaga til þingsályktunar um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum.

Lögð hefur verið fram tillaga til þingsályktunar um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Flutningsmenn eru Þuríður Backman, Birgitta Jónsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum plöntum eigi síðar en 1. janúar 2014.

Greinargerð Þingsályktunartillaga sama efnis var flutt á 140. löggjafarþingi (667. mál) en náði ekki fram að ganga. Með tillögu þessari er lagt til að starfshópur sérfræðinga á vegum umhverfis- og auðlindaráðherra undirbúi breytingar á lögum og reglugerðum sem varða ræktun á erfðabreyttum plöntum, þ.e. um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera og sleppingu eða dreifingu út í umhverfið miðað við íslenskar aðstæður. Í tillögunni felst að slík ræktun fari í kjölfarið einungis fram inni í lokuðum gróðurhúsum eða tilraunastofum þar sem hægt verði að hafa stöðugt eftirlit með henni og tryggt sé að erfðabreytt efni sleppi ekki út í nærumhverfi ræktunarsvæðis.

Þau lög sem málið varðar og þarfnast endurskoðunar, a.m.k. sum hver, eru lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, og eftirfarandi reglugerðir: nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera, nr. 68/1998 um ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur, nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda, nr. 275/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra örvera og nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.

Meðfylgjandi viðaukar þessara laga og reglugerða þarfnast einnig endurskoðunar, til að mynda viðauki um aðgreiningu erfðabreyttra lífvera eftir áhættuflokkum, sérstaklega með tilliti til niðurstöðu nýrra vísindalegra rannsókna á viðkomandi fræðasviðum.

Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að leggja af útiræktun á erfðabreyttum plöntum til þess að vernda hreinleika íslenskrar náttúru og með tilliti til siðferðislegrar skyldu núlifandi kynslóðar til að koma í veg fyrir að einkenni hennar glatist. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til árið 2010 að einstökum aðildarríkjum yrði heimilað að takmarka eða banna slíkra ræktun innan eigin landamæra, ekki eingöngu vegna áhrifa á heilsu og umhverfi heldur einnig af félagsfræðilegum og efnahagslegum ástæðum. Væri það enn fremur í samræmi við varúðarregluna og alþjóðlega samninga á borð við Cartagena-bókunina um líföryggi, Codex Alimentarius og Árósasamninginn.

Vaxandi áhugi er í ríkjum Evrópu á að skilgreina lönd eða svæði sem laus við erfðabreytta ræktun og má í því sambandi vísa til ályktunar þings Evrópuráðsins um notkun erfðabreyttra lífvera í landbúnaði frá 11. mars 2011. Mörg ríki innan Evrópusambandsins gera nú kröfu um að geta bannað ræktun erfðabreyttra lífvera, að hluta eða öllu leyti. 141. löggjafarþing 2012–2013. Þingskjal 196  —  193. mál.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd