Náttúruverndarhreyfingin, útivistarsamtök og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa undirritað viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Ný vefsíða hálendisverkefnisins var opnuð: halendid.is.
Víðtæk samstaða er um verndun miðhálendis Íslands
Markmiðið með viljayfirlýsingunni er að ná sem víðtækastri samstöðu um verndun miðhálendis Íslands með stofnun þjóðgarðs í eigu íslensku þjóðarinnar. Þau samtök sem undirrita yfirlýsinguna eru sammála um að hálendisþjóðgarður geti orðið eitt stærsta framlag okkar tíma til náttúruverndar á Íslandi um leið og þjóðgarðurinn yrði griðastaður fyrir þá sem vilja njóta náttúru miðhálendisins og nýta hana til ferðamennsku, útivistar og náttúruupplifunar.
Sú samstaða sem náðst hefur með viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands markar þannig tímamótasamstöðu um náttúruvernd á Íslandi.
Tímamótasamstaða um náttúruvernd á Íslandi
Í þjóðgarði felast mörg tækifæri og er náttúruvernd þar undirstaðan. Tækifærin byggja á því að náttúrugæðum miðhálendisins verði ekki raskað frekar og að upplifun víðerna og óbyggða sem þar má finna hverfi ekki. Búa þarf svo um hnútana að hægt sé að þróa atvinnustarfsemi sem spillir ekki náttúrugæðum miðhálendisins, en hefur á sama tíma jákvæð áhrif á byggða- og atvinnuþróun í nærsveitarfélögum og landinu öllu. Þannig getur stofnun hálendisþjóðgarðs verið atvinnuskapandi um leið og sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.
Yfir 60% landsmanna eru fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu
Samkvæmt skoðanakönnun Gallup (apríl, 2015) eru yfir 60% landsmanna fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og einungis 13% andvíg. Samkvæmt sömu könnun er sú skoðun þvert á stjórnmálaflokka. Því má segja að samstaða neðangreindra samtaka sé lýsandi fyrir stuðninginn sem hugmyndin hefur í þjóðfélaginu.
Verndun miðhálendisins fékk byr í seglin í kjölfar tónleika Gætum garðsins árið 2014 og í framhaldinu með stuðningi Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar. Það er eindreginn vilji þeirra samtaka sem unnið hafa að viljayfirlýsingunni að sem víðtækust samstaða náist um þetta mikilvæga mál á meðal landsmanna og hagaðila.
Náttúran er okkar verðmætasta auðlind og hún er ekki óþrjótandi
„Náttúra Íslands er einstök í augum þeirra erlendu ferðamanna sem sækja landið okkar heim og þá ímynd ber okkur að varðveita,“ segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. „Náttúran er okkar verðmætasta auðlind og hún er ekki óþrjótandi. Með stofnun þjóðgarðs yrði myndaður skýr rammi utan um hin gríðarlegu verðmæti sem felast í ósnortinni náttúru á miðhálendi Íslands. Þá felast í hugmyndinni mikil tækifæri til atvinnusköpunar þar sem vernd og nýting fara saman“, segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar“
„Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er stærsta markmið náttúruverndar á Íslandi. Um það hefur nú náðst víðtæk samstaða og því fögnum við í dag” segir Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Hálendið er í alla staði verðmatara villt en virkjað
„Þessi samstöðuyfirlýsing er stór áfangi á þeirri leið að vernda eitt okkar allra dýrasta djásn, hálendið, í einum stórum þjóðgarði. Það yrði mikið heillaskref fyrir þjóðina því hálendið er í alla staði verðmætara villt en virkjað”, segir Snorri Baldursson formaður Landverndar.
„Upplifun á hálendinu og óbyggðum Íslands er einstök. Því er mikilvægt að þjóðin taki ákvörðun til lengri tíma um verndun hálendisins, samhliða því sem öllum verði tryggður réttur til útvistar og frjálsrar farar um landið” segir Skúli H. Skúlason, framvkæmdastjóri Ferðafélagsins Útivistar.
Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er stærsta markmið náttúruverndar á Íslandi
„Ferðaklúbburinn 4×4 hefur tekið virkan þátt í starfi vinnuhópsins sem kemur að verndun miðhálendisins. Klúbburinn hefur alltaf haft náttúruvernd að leiðarljósi og að sjálfbærri nýtingu á hálendi Íslands. Ferðaklúbburinn 4×4 sem var stofnaður í mars 1983 hefur frá upphafi verið virkur í vörnum gegn spjöllum af völdum umferðar utanvega með stikun á vegum og slóðum, heftun upplásturs og verndun gróðurs á hálendinu. Jafnframt hefur klúbburinn beitt sér ötullega fyrir fræðslu og góðri ferðamenningu. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu mun ef rétt verður haldið á spilunum geta aukið aðgengi Íslandinga og annarra ferðamanna á miðhálendið án þess að náttúran hljóti skaða af. Verndun og nýting náttúrunnar er möguleg ef rétt er unnið í málunum og öfgar settir til hliðar og málin skoðuð á þeim grundvelli sem nýst getur hvort sem er til nútíðar eða framtíðar”, segir Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4X4.