Nú líður að nýju Bláfánatímabili og rennur frestur til að sækja um Bláfánann fyrir árið 2011 út 28. febrúar nk.
Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisviðurkenning sem veitt er rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda. Bláfánaverkefninu var hleypt af stokkunum á Íslandi árið 2003 og flagga nú sex staðir fánanum en það eru Hafnarhólmahöfn í Borgarfirði, Arnarstapahöfn, Stykkishólmshöfn, Suðureyrarhöfn, Bláa lónið og Ylströndin í Nauthólsvík. Eitt hvalaskoðunarskip flaggar Bláfánaveifu en hana geta þeir fengið sem undirrita viljayfirlýsingu um framúrskarandi vistvæna umgengni við hafið.
Nokkrir aðilar undirbúa nú þátttöku í Bláfánaverkefninu.
Bláfáninn er útbreiddasta viðurkenning sinnar tegundar í heiminum og flagga 3450 staðir í 41 landi fánanum á heimsvísu. Fáninn er veittur fyrir góða umhverfisstjórnun, fræðslu um náttúru og umhverfi, gæði vatns, öryggi og aðra þjónustu. Alþjóðleg samtök um umhverfismennt, Foundation for Environmental Education (FEE), fara með yfirstjórn verkefnisins.
Bláfánaverkefnið er helgað menntun til sjálfbærrar þróunar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) tók þátt í innleiðingu Bláfánans innan sambandsins árið 1987. Einnig hafa Umhverfismenntastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og FEE unnið sameiginlega að ýmsum verkefnum frá árinu 2003 og hafði stofnunin t.d. hliðsjón af Bláfánaverkefninu þegar gefin var út handbók um umhverfisstjórnun á strandsvæðum á vegum UNEP. Í ljósi þess að umhverfisviðurkenning Bláfánans styrkir stoðir ferðaþjónustunnar víðsvegar um heim undirrituðu Alþjóðlega ferðamálastofnunin (UNWTO) og FEE yfirlýsingu um samstarf árið 2007.
Á Íslandi eru það einkum sveitarfélög, hafnarstjórnir, siglingaklúbbar, rekstraraðilar baðstaða og ferðaþjónustan sem sjá sér hag í að taka þátt í Bláfánaverkefninu. Helstu bakhjarlar verkefnisins hér eru Ráðuneyti ferðamála, Umhverfisráðuneytið, Samgönguráðuneytið og Landbúnaðar- og Sjávarútvegsráðuneytið.
Frekari upplýsingar um Bláfánaverkefnið veitir Sigrún Pálsdóttir verkefnisstjóri í síma 552 5242 eða 866 9376.
Hér má nálgast umsóknir:
Umsókn um Bláfánann fyrir smábátahafnir
Umsókn um Bláfánann fyrir baðstrendur