Tími til að sækja um Bláfánann 2013

Nú líður að nýju Bláfánatímabili og frestur til að sækja um Bláfánann fyrir árið 2013 rennur út 20. febrúar nk. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisviðurkenning sem veitt er rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda. Bláfánaverkefninu var hleypt af stokkunum á Íslandi árið 2003 og flögguðu þrír staðir fánanum í fyrra, Hafnarhólmahöfn á Borgarfirði eystri, Stykkishólmshöfn og Bláa lónið.

Nú líður að nýju Bláfánatímabili og frestur til að sækja um Bláfánann fyrir árið 2013 rennur út 20. febrúar nk.

Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisviðurkenning sem veitt er rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda. Bláfánaverkefninu var hleypt af stokkunum á Íslandi árið 2003 og flögguðu þrír staðir fánanum í fyrra, Hafnarhólmahöfn á Borgarfirði eystri, Stykkishólmshöfn og Bláa lónið. Tvö hvalaskoðunarskip flagga Bláfánaveifu en hana geta þeir fengið sem undirrita viljayfirlýsingu um framúrskarandi vistvæna umgengni við hafið. Nokkrir aðilar undirbúa nú þátttöku í Bláfánaverkefninu.

Bláfáninn er útbreiddasta viðurkenning sinnar tegundar í heiminum og flagga 3850 staðir í 46 löndum fánanum á heimsvísu. Fáninn er veittur fyrir góða umhverfisstjórnun, fræðslu um náttúru og umhverfi, gæði vatns, öryggi og aðra þjónustu. Alþjóðleg samtök um umhverfismennt, Foundation for Environmental Education (FEE), fara með yfirstjórn verkefnisins.

Frekari upplýsingar um Bláfánaverkefnið veitir Salome Hallfreðsdóttir verkefnisstjóri í síma 552 5242 eða í tölvupósti á salome@landvernd.is.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd