Tíu handhafar Bláfánans 2015

Landvernd fór með umsjón Bláfánans á árunum 2002-2018, landvernd.is
Námskeið í Bláfánaeftirliti og endurskoðun Bláfánaveifu.

Vorfréttabréf Bláfánans

Bláfáninn hefur náð mikilli útbreiðslu um heim allan og alls flagga í ár um 4.000 baðstrendur og smábátahafnir Bláfánanum í 49 löndum. Fulltrúar Landverndar líta svo á að verkefnið eigi sérstakt erindi við Íslendinga. Ferðaþjónusta er hér í mikilli sókn auk þess sem þjóðin byggir að miklu leyti afkomu sína á auðlindum hafsins. Því er mikilvægt að umgengni við hafið og strendur landsins sé til fyrirmyndar.

Í þessu vorfréttabréfi kynnum við Bláfánahandhafa 2015, segjum frá námskeiði í Bláfánaeftirliti sem haldið var í apríl og fjöllum stuttlega um endurskoðun Bláfánaveifu.

Hægt er að nálgast fréttabréfið hér og skrá sig á póstlista Bláfánans.

Metár Bláfánans á Íslandi

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að allar tíu umsóknirnar sem bárust Landvernd í ár hafa nú verið samþykktar af bæði innlendri og alþjóðlegri dómnefnd. Bláfánatímabilið hefst um miðjan maí og lýkur um miðjan september hjá flestum handhöfum en tveir umsækjendur, Bláa lónið og Ylströndin, flagga allt árið um kring.

Bláfánahandhafar árið 2015 eru:

Bláa lónið
Langisandur á Akranesi
Smábátahöfnin á Bíldudal
Smábátahöfnin á Borgarfirði eystri
Smábátahöfnin á Brjánslæk
Smábátahöfnin á Patreksfirði
Smábátahöfnin á Suðureyri
Smábátahöfnin í Stykkishólmi
Ylströndin í Nauthólsvík
Ýmishöfn í Kópavogi

Afhendingar Bláfánans fara fram í lok maí og byrjun júní og hlökkum við á Landvernd til þess að fagna þessum áfanga með handhöfum.

Námskeið í Bláfánaeftirliti

Þann 29. apríl síðastliðinn hélt Bláfáninn á Íslandi eftirlitsnámskeið fyrir stýrihóp Bláfánans og starfsfólk Landverndar. Meginmarkmið námskeiðsins var að þjálfa eftirlitsaðila til þess að eftirlitið samræmist betur alþjóðlegum kröfum Bláfánans. Námskeiðið samanstóð af almennri kynningu á framkvæmd Bláfánaeftirlits, yfirferð eftirlitsblaðs og að lokum var farið í eftirlitsferð um Bláa lónið. Handhafar Bláfánans eiga von á eftirlitsaðila a.m.k. einu sinni á Bláfánatímabili.

Ný Bláfánaveifa fyrir náttúruskoðun á hafi

Vinna við endurskoðun Bláfánaveifu er nú á lokastigum og verða ný viðmið kynnt á ársfundi Bláfánans sem haldinn verður í október næstkomandi. Hingað til hafa hvalaskoðunarfyrirtæki og smábátaeigendur getað flaggað Bláfánaveifunni ef þeir hafa undirritað viljayfirlýsingu sem gefur fyrirheit um að umhverfismál séu tekin föstum tökum. Endurskoðun Bláfánaveifunnar fólst m.a. í því að auka kröfurnar sem gerðar eru til handhafa Bláfánaveifunnar þannig að þær samræmist betur hinum strangari kröfum og viðmiðum Bláfánans sjálfs. Ný Bláfánaveifa mun taka gildi í janúar 2016.

Handhafar Bláfánaveifunnar árið 2015 eru:

Ambassador á Akureyri
Elding við Reykjavíkurhöfn
Norðursigling á Húsavík
Sérferðir við Reykjavíkurhöfn

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd