Landvernd skorar á stjórnvöld og fjölmiðla að styðja við náttúruvernd og þátttöku almennings í henni.
Landvernd minnir á Árósasamninginn og hlutverk frjálsra félagasamtaka. Þau eiga ekki að vera tæki í höndum stjórnvalda.
Stjórnvöldum ber að tryggja rétt almennings, stuðla að vitundarvakningu og tryggja aðgengi að upplýsingum, og aðild og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum. Þá ber stjórnvöldum að styðja við félög, samtök og hópa sem vinna að umhverfisvernd.
Landvernd telur því að í auglýsingu um styrkveitingar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til frjálsra félagasamtaka gæti misskilnings um hlutverk þeirra. En þar segir:.
„Vinna er nú í gangi við endurskoðun og einföldun á heildarstyrkjakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og er við þá vinnu horft til þess að styrkveitingar hverju sinni styðji við áherslumál stjórnvalda á þeim tíma.“
Sókn í náttúruauðlindir hefur aldrei verið meiri. Afköst og tæknilegt afl við stórframkvæmdir er meira en nokkru sinni.
Máttur umhverfisverndarsamtaka til að vinna fyrir náttúruna og rétti manna og dýra til heilnæms og heilbrigðs umhverfis hefur að sama skapi minnkað. Vandinn er þekktur á heimsvísu.
Umhverfisfréttamennska á undir högg að sækja, þaggað er niður í fólki sem vinnur í loftslags- og náttúruvernd og dæmi um að það sé svipt atvinnu. Tilgangur náttúruverndar er dreginn í efa og gerður tortryggilegur og þekking véfengd.
Landvernd skorar á stjórnvöld að tryggja afkomu og þátttöku starfandi umhverfisverndarverndarsamtaka í landinu og styðja við lýðræðisleg störf þeirra og alls fólks sem vinnur að málum tengdum umhverfis- og náttúruvernd í fjölmiðlum, hjá opinberum stofnunum, á pólitískum vettvangi og á almennum vinnumarkaði.
Ofangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Landverndar 23. maí 2024.