Traust áætlun eða skýjaborgir? – fyrstu viðbrögð við nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir umhverfissinnar og Aldin héldu sameiginlegan fjölmiðlafund þar sem hver samtök fyrir sig héldu stutta kynningu á sínum fyrstu viðbrögðum við uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslgasmálum undir yfirheitinu, Traust áætlun eða skýjaborgir?

Aðgerðaáætlunin skilar ekki nógu miklum samdrætti. Hlutdeild Íslands í markmiðum Evrópusambandsins, Noregs og Íslands er áætluð 41% og sjálfstætt markmið 55%. Ekki er ljóst hvaða samdrætti stefnt er að en aðgerðaáætlunin nær ekki nema 35% samdrætti í losun.

Þá var samráð við náttúruverndarsamtök ekkert og umsagnarfresturinn ekki nægjanlegur.

Eftir tveggja ára vinnu eru 82 af 150 aðgerðum annað hvort á hugmyndastigi eða fyrirhugaðar. Það er greinilega mikil vinna fram undan og Landvernd lýsir yfir einlægum vilja til þess að aðstoða stjórnvöld við að útfæra ókláruðu aðgerðirnar svo að af þeim náist sem mestur samdráttur.

Aðgerðaáætlun þessi er mótuð út frá þeirri heimsmynd að við getum haldið okkar stanslausa vexti og auðlindanotkun áfram, bara fært okkur frá jarðefnaeldsneyti og yfir í græna orku fyrir alla þá orku og auðlindasóun sem mannkynið stundar nú, með tilheyrandi raski á vistkerfum heimsins sem er einmitt risastór þáttur í losun á Íslandi. Þetta endurspeglast til dæmis í því að í aðgerðaráætluninni eru tvær aðgerðir sem snúa að aukinni orkuöflun, en ekki er ein aðgerð sem hefur það að markmiði að beina orku í orkuskiptaverkefni, hvort sem það er gert með einhverjum ramma og girðingum innan markaðarins, hvötum og gjöldum eða öðrum leiðum. Eftirspurn eftir grænni orku er óendanleg en auðlindin er takmörkuð eins og allar auðlindir.

Þorgerður María Þorbjarnardóttir formaður félagsins var viðmælandi ríkisútvarpsins í hádegisfréttum. Fréttina má nálgast hér

Hér fyrir neðan má finna upptöku af viðburðinum.

 

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd