Um 5.000 manns tóku þátt í grænni göngu náttúruverndarhreyfingarinnar í gær 1. maí. Gangan endaði á því að 1.000 grænum fánum var stungið niður á Austurvelli við Alþingi.
Efnt var til göngunnar með skömmum fyrirvara til að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar. Í nýliðinni kosningabaráttur voru umhverfismál lítið rædd vegna mikillar áherslu á skatta- og skuldalækkanir. Um þær var kosið. En skoðanakannanir sýna að fleiri eru andvígir fjölgun virkjana og stóriðju en fylgjandi. Þannig reyndust 44% andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn samkvæmt nýlegri könnun Capacent-Gallup en 30% fylgjandi. Í sömu könnun sögðust 51% vera því andvíg að fleiri álver verði reist hér á landi en 31% voru því hlynnt.
Á því kjörtímabili sem nú er að hefjast verða teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, þar á meðal Mývatn, Skjálfandafljót, Aldeyjarfoss, Hágöngur, Jökulsárnar í Skagafirði, Urriðafoss, Skaftá og Hólmsá og verðmæt náttúrusvæði Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna, sem gerir ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu, mun koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggur krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar var að náttúru Íslands yrði hlíft.ó
Ómar Ragnarsson ávarpaði gönguna og sagði meðal annars: ,, Góðu, grænu vinir, græni herinn sem á tugþúsundir liðsmanna í öllum stjórnmálaflokkum. Herhvöt skáldsins er að verja heiður og líf Íslands gegn trylltri öld. Þetta er sama herhvöt og Árni Magnússon hlýddi í baráttu sinni fyrir varðveislu handritanna fyrir 300 árum þegar þeir sem sultu og skulfu hjá fátækustu þjóð Evrópu neyddust til að klippa handritin niður til að bæta flíkur sínar. Heimsgersemarnar í náttúru Íslands eru handrit okkar tíma og hjá einni af ríkustu þjóð heims hljóta að bjóðast betri ráð til að blómstra í bráð og lengd en að fórna þeim.“
Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, lauk samkomunni á Austurvelli með þessum orðum: ,,Hjördís Finnbogadóttir frá Geirstöðum við Mývatn, fjallaði nýverið í útvarpi um fyrirhugaða Bjarnarflagsvirkjun og sprengjumennina við Miðkvíslarstíflu fyrir 40 árum. Hún sagði: ,,Ég held að það sé kominn tími til að sprengja stíflur staðnaðs hugarfars og hyggju að nýjum lausnum þar sem sjálfbærni og virðing fyrir náttúrunni eru í öndvegi.“ Kæru félagar, í dag erum við göngumenn. En á morgun og alla daga héðan í frá verðum við sprengjumenn sem sprengja stíflur staðnaðs hugarfars. Við erum sprengjumenn á vinnustöðunum, við erum sprengjumenn í stéttarfélögunum, við erum sprengjumenn á facebook og kommentakerfunum, við erum sprengjumenn í heitu pottunum, við erum sprengjumenn á kaffistofunum. Við erum sprengjumenn í hjarta – sem sprengja stíflur staðnaðs hugarfars.“
Það voru fimmtán náttúru- og umhverfisverndarfélög sem stóðu að göngunni: Landvernd, Ungir umhverfissinnar, Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglavernd, Framtíðarlandið, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Náttúruvaktin, Sól á Suðurlandi, Eldvötn, Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og Græna netið.
Tæplega fimmtíu gengu græna göngu á Akureyri 1. maí, en hún var ákveðin með örskömmum fyrirvara.