Alviðra – Fræðslusetur Landverndar
Alviðra er fræðslusetur Landverndar. Sjá á korti
Útivera og náttúruvernd
Reynslan sýnir að útvera og náttúrumennt eru góðir samherjar. Í fræðslusetrinu er góð aðstaða í bæjarhúsinu og stórt athafnasvæði í hlöðunni. Þá veitir dagsdvöl í Alviðru aðgang að fjölbreyttri náttúru til að skoða og njóta. Hlíðar Ingólfsfjalls eru góður vettvangur fræðslu um jarðfræði. Sogið er kjörið til að fjalla um lífið í vatninu og þá fugla sem njóta þar lífsviðurværis. Öndverðarnes II er náttúrulegur birkiskógur, þar liggur gönguleið að staðnum þar sem lindáin Sogið og jökuláin Hvítá mætast. Blómaskrúð í Alviðru er mikið og gróður fjölbreyttur, kjörinn bæði til að njóta hans og til að greina plönturnar. Tæki og handbækur eru á staðnum til að styðja kennsluna. Auðvelt er að velja úr verkefnum sem passa mismunandi aldursskeiðum.
Margt er að sjá í Alviðru og nágrenni. Þegar gengið er í hlíðar Ingólfsfjalls og þar skoðað sæbarið grjót varpar það ljósi á þá staðreynd að sjór stóð mun hærra í lok ísaldar en nú. Úr hlíðum Ingólfsfjalls er gott útsýni og sést m.a. yfir stórárnar þrjár, Sogið, Hvítá og Ölfusá, og ef gott skyggni er má sjá til Heklu, Tindfjalla og Eyjafjallajökuls. Á leiðinni má sjá menningarminjar sem vert er að staldra við og skoða.
Fræðslusetur í Alviðru
Magnús Jóhannesson bóndi í Alviðru gaf Landvernd og Árnessýslu jarðirnar Alviðru í Ölfusi og Öndverðarnes II í Grímsnesi árið 1973 og árið 1981 var gerð skipulagsskrá yfir eignirnar. Alviðra var gerð að sjálfseignarstofnun undir nafninu Alviðra, landgræðslu- og náttúruverndarstofnun, enda eru þar tækifæri til margs konar fræðslu og náttúruskoðunar. Þar er húsnæði fyrir allt að 30 manns. Íbúðarhúsnæðið er til leigu fyrir kennslu og fundarhald frá október og fram í apríl. Þá er hlaðan einnig til leigu fyrir hlöðusamverustundir og -samkvæmi.
Elstu heimildir um búsetu í Alviðru eru frá því um siðaskipti þegar jörðin sem áður var eign kirkjunnar varð konungseign.
Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarsambandi Suðurlands er jörðin Alviðra 651 hektari að stærð. Nokkur hluti jarðarinnar er ógróið land á Ingólfsfjalli.