Í síðustu viku komu í ljós þrjú mál sem starfsstjórn afgreiddi með því takmarkaða lýðræðislega umboði sem starfsstjórn hefur. Hlutverk starfsstjórnar er ekki vel skilgreint í lögum en það hlýtur að teljast til misbeitingar á umboði þegar umdeild og stefnumarkandi mál eru keyrð áfram í tómarúminu sem þingkosningar mynda og ekki er eiginleg ríkisstjórn með meirihlutaumboð við lýði. Dæmi um umdeild mál:
1. Átta friðlýsingar afnumdar og settar í rammaáætlun að nýju.
2. Svæðisskipulag Suðurhálendisins staðfest.
3. Leyfi gefið til hvalveiða.
2. desember tilkynnti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið að átta friðlýsingar hefðu verið felldar úr gildi. Guðlaugur Þór Þórðarson tekur dóm Hæstaréttar um að formgalli hafi verið á friðlýsingunum þannig að beina þurfi virkjanakostum innan friðlýstu svæðanna aftur til Rammaáætlunar til þess að friðlýsa þá með löglegum hætti. Landvernd telur ekki að afnema hefði þurft allar friðlýsingarnar og þá sérstaklega ekki þær sem eru á landsvæði í eigu ríkisins. Landvernd fer fram á að kostirnir njóti forgangs í afgreiðslu og að friðunin samþykkt á þingi með réttum hætti þar sem friðuðu svæðin halda sér óbreytt.
2. desember kom einnig tilkynning frá stjórnarráðinu þess efnis að Sigurður Ingi Jóhannsson hefði staðfest svæðisskipulag Ssuðurhálendisins. Skipulagsstofnun gerði margar athugasemdir við skipulagið varðandi uppbyggingaráform sem stofnunin taldi víkja verulega frá fyrirliggjandi stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu. Það varðar ákvæði svæðisskipulagsins um uppbyggða malbikaða vegi og uppbyggingu ferðaþjónustustaða. Landvernd telur það utan við umboð ráðherra í starfsstjórn að taka slíkar ákvarðanir sem hafa áhrif til langs tíma og geta haft veruleg áhrif á viðkvæma og mikilvæga náttúru, víðerni og ásýnd miðhálendisins. Við megum aldrei umgangast miðhálendið svona, að umboðslaus ráðherra starfsstjórnar ákveði stuttu fyrir kosningar að samþykkja skipulag þar sem malbika á og hækka upp ýmsa hálendisvegi. Hálendið er sameign okkar allra. Íbúar þessara sveitarfélaga eru 2% þjóðarinnar. Þetta er risavaxið mál að malbika þessa vegi sem varanlega breytir ásýnd hálendisins og allri umgengni við það.
Landvernd fer fram á að staðfestingin verði dregin til baka og málið lagt fyrir ráðherra skipulagsmála í nýrri ríkisstjórn.
5. desember var einnig greint frá því að Bjarni Benediktsson hafi veitt þrjú hvalveiðileyfi. Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir umhverfissinnar, Hvalavinir, Félag grænkera og Dýraverndarsamtök Íslands, lýstu samdægurs yfir furðu sinni og vanþóknun á útgáfu hvalveiðileyfa af hálfu starfsstjórnar. Með því er lýðræðinu ekki sýnd virðing og með útgáfu leyfisins gengið gegn hagsmunum loftslags, náttúru og dýravelferðar.
Landvernd skorar á nýja ríkisstjórn að afturkalla ákvarðanir starfsstjórnar í umdeildum málum og vinna þau upp á nýtt með lýðræðislegum hætti.
Stjórn Landverndar gerir þá kröfu til starfsstjórnar að afgreiða aðeins þau mál sem krefjast afgreiðslu strax og leyfa komandi ríkisstjórn að taka á þeim málum sem eru eins pólitísk og þau mál sem upp eru talin hér að framan.
Fyrir hönd stjórnar,
Þorgerður María Þorbjarnardóttir
Formaður