Umhverfis- og náttúruvernd um áramót

,,Það er gæfa Íslendinga að eiga mikla auðlegð. Auðæfi og menntun þjóðarinnar ætti að gera okkur kleift að marka framtíðarsýn þar sem góðum lífskjörum í landinu er viðhaldið án þess að eyðileggja ómetanlega náttúruarfleið. Allt starf Landverndar miðast að því að gera slíka framtíðarsýn að fýsilegum valkosti." Segir Ólöf Guðný Valdimarsdóttir formaður Landverndar í áramótagrein.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir

formaður Landverndar, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtaka Íslands. skrifar:

Lítið bar á umhverfis- og náttúrvernd í áramótaumfjöllun stjórnmálamanna og fjölmiðla að þessu sinni. Vonandi er það vísbending um að tekist hafi að skapa umhverfismálum þann sess að líta beri á náttúruvernd sem sjálfsagðan og eðlilegan þátt í samfélaginu. Landvernd hefur lengi reynt að stuðla markvisst að því m.a. með víðtæku fræðslustarfi. Sem dæmi má nefna að liðlega 30 skólar taka þátt í Grænfánaverkefni samtakanna sem er umhverfisfræðsla í skólum. Tæplega tvö þúsund grunnskólanemar sækja árlega náttúruskólann í Alviðru, umhverfisfræðslusetur Landverndar, heim og mörg hundruð heimili hafa tileiknað sér vistvernd í verki fyrir tilstuðlan Landverndar og styrktaraðila. Auk þess hefur Landvernd tekið þátt í mörgum öðrum verkefnum stórum og smáum til að stuðla að og efla vitund um umhverfisvernd.

Nýleg skýrsla Norðurskautsráðsins um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum staðfestir að ef ekki tekst að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum verða hættulegar breytingar á veðurfari og lífríki á norðurskautssvæðinu. Talsverðar breytingar hafa nú þegar komið fram og óhjákvæmilega verða frekari breytingar. Í umræðu um loftslagsbreytingar virðist oft gleymast að það má enn koma í veg fyrir þróun sem gæti umturnað lífríki á svæðinu og haft afar víðtækar neikvæðar afleiðingar fyrir þau samfélög sem þar búa. En þá þarf að bregðast strax við með raunhæfum aðgerðum. Það er til lítils af afla þekkingar um ástand og horfur ef það skortir bæði vilja og þor til að taksat á við vandamálið og grípa til aðgerða, bæði hér á landi og í samstarfi við aðrar þjóðir.

Tímamót urðu þegar Alþingi samþykkti náttúruverndaráætlun á síðasta ári. Í fyrsta sinn var tekin stefnumarkandi ákvörðun um heilstæðar aðgerðir til að treysta verndun íslenskrar náttúru. Eitt mikilvægt viðfangsefni varð þó útundan í náttúruverndaráætlunni. Það er nauðsynleg stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem Umhverfisstofnun hafði gert tillögu að. Samanburðarrannsóknir sýna að Þjórsárverasvæðið er eitt verðmætasta hálendissvæði Íslands. Nýleg úttekt erlendra sérfræðinga staðfestir að náttúra og landslag við sunnanverða Hofsjökul hefur mikið alþjóðlegt náttúruverndargildi, jafnvel svo mikið að það gæti átt heima á Heimsminjaskrá UNESCO. Skoðanakönnun sem gerð var í nóvember bendir til þess að tveir þriðjuhlutar þjóðarinnar styði humyndir um stækkun friðlandins. Engin brýn þröf kallar á frekari orkuöflun á þessu svæði og ráðamenn að sjá sóma sinn í að láta Þjórsárverassvæðið í friði og láta af hugmyndum um framkvæmdir sem eyðileggja einstaka náttúru á heimsvísu. Það ætti því að vera forgangsverkefni í náttúruvernd að stækka friðlandsmörk Þjórsárvera þannig að þau nái til þeirra verðmæta sem svæðið býr yfir.

Holtasóley var valin sem þjóðarblóm í skoðankönnun sem Morgunblaðið og Landvernd stóðu að á árinu. Þjóðarblómið á að minna okkur á mikilvægi þess að viðhalda og efla gróðurvernd. Gróður og jarðvegur eru ein mikilvægasta náttúruauðlindin og forsenda lífs á landi og gróður- og jarðvegsvernd hefur lengið verið eitt mikilvægasta viðfangsefni Íslendinga í umhverfismálum. Undanfarna áratugi virðist sem árangur hafi verið að nást á þessu sviði, en ástæða er til að óttast að hann verði ekki varanlegur. Skortur á túrverðugum aðgerðum til að takast á við vænanlegan vanda vegna áfoks og uppblásturs frá Hálslóni við Kárahnjúka er verulegt áhyggjuefni. Þá er mikill akstur utan vega dæmi um virðinga- og sinnuleysi sem enn ríkir um þessi mál. Beit á illa grónu landi virðist enn viðgangast þó alkunna sé að hún leiði til eyðileggingar.

Nýleg skráning Þingvalla á Heimsminjaskrá UNESCO minnir á mikilvægi þess að vernda viðkvæm og dýrmæt svæði sem eru einstök á heimsvísu. Það er verðugt framlag Íslands til umheimsins að skila verðmætri náttúruarfleið óspilltri til komandi kynslóða. Stjórnvöld keppast við að undirstrika mikilvægi vatns- og jarðvarmaorku landsins sem framlags til sjálfbærrar þróunar á heimsvísu. Það fyrir sig getur verið rétt, en snýst í andhverfu sína ef orkunnar er aflað með því að eyðileggja eða spilla náttúruarfleið á heimsmælikvarða. Margt bendir til að slíkt sé að gerast og áætlanir benda til að eyðileggingin haldi áfram verði ekki gripið í taumana þegar í stað.

Vitund, vilji, þekking og virðing fyrir náttúrunni eru ávísun á umhverfisvernd. Það er ekki draumsýn að gera megi framþróun samfélagsins og efnahagslífsins sjálfbæra, dæmin sanna að það er hægt. En það krefst þess að skammtíma hagnaðarsjónamið fárra manna ráði ekki úrslitum þegar teknar eru ákvarðanir um framkvæmdir og aðgerðir sem varða margar kynslóðir. Það er gæfa Íslendinga að eiga mikla auðlegð. Auðæfi og menntun þjóðarinnar ætti að gera okkur kleift að marka framtíðarsýn þar sem góðum lífskjörum í landinu er viðhaldið án þess að eyðileggja ómetanlega náttúruarfleið. Allt starf Landverndar miðast að því að gera slíka framtíðarsýn að fýsilegum valkosti.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd