Náttúruverndarsamtök og frjáls félagasamtök á Norðurslóðum hafa sent frá sér sameiginlega ályktun um málefni Norðurheimskautsins, sem Landvernd stendur að. Í ályktuninni hvetja samtökin umhverfisráðherra á arktískum svæðum að þrýsta á stjórnvöld landa sinna að draga úr losun kolefnis sem til verður við ófullkominn bruna jarðefnaeldsneytis, lífeldsneytis og lífmassa og finnst í sóti (e. black carbon).
Talið hefur verið að samdráttur í losun slíkra skammlífra kolefnissambanda geti verið afar árangursrík leið til að hægja á hlýnun og bráðnun íss á arktískum svæðum á næstu áratugum. Sú mikla bráðnun sem þegar hefur orðið og spáð er á næstu áratugum hefur alvarlegar afleiðingar á fólk sem býr á heimskautasvæðinu, líffræðilegan fjölbreytileika svæðisins og á samfélög um heim allan sem búa við lága sjávarstöðu.