Umhverfisráðuneytið er sátt við mengun frá rafskautaverksmiðju

Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma er stærsti valdur mengunar á Íslandi á eftir flugsamgöngum, á myndinni má sjá Elkem á Grundartanga, landvernd.is
Umhverfisráðuneytið fellst ekki á kæru og kröfur Landverndar vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum áformaðrar rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði og staðfestir úrskurð Skipulagsstofnunar.

Í september 2004 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrif áformaðra rafskautaverksmiðju í Hvalfirði væru ekki umtalsverð. Stjórn Landverndar kynnti sér málið og komst þeirri niðurstöðu að mikil óvissa væri um hvað væru ásættanleg viðmiðunarmörk fyrir mengun vegna PAH-efna frá rafskautaverksmiðjunni. Þá væru hér á landi ekki í gildi neinar viðmiðunarreglur um þessi hættulegu efni. Því ákvað stjórnin að kæra úrskurðinn til umhverfisráðherra. Taldi stjórn Landverndar að stjórnvöldum bæri á grundvelli varúðarreglunnar, sem felur það í sér að ef ekki liggur fyrir vísindaleg fullvissa um að áformaðar framkvæmdir valdi ekki alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, þá beri að hafna áformum um framkvæmd. Stjórnin taldi það óásættnalegt að stjórnvöld heimiluðu starfsemi sem hefði í för með sér losun á krabbameinsvaldandi mengunarefnum þegar ekki væru í gildi reglur um viðmiðunarmörk.

Umhverfisráðuneytið sendi málið til umsagnar fjölmargra aðila. Í þeim má finna stuðning við málflutning Landverndar. M.a. segir í umsögn Veðmálastofnunar að tekið sé undir áhyggjur kæranda og gagnrýni þeirra á skort á skýrum viðmiðun um hættugildi PAH-efna þar sem umrædd efni munu berast í vatn. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands er tekið undir sjónarmið um nauðsyn þess að fyrir liggi reglugerð um loftmengun í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Almennt virðast flestir umsagnaraðilar taka undir þá megin forsendu kæru Landverndar að seta þurfi íslenskar reglur um viðmiðunarmörk fyrir styrk PAH-efna. Að mati stjórnar Landverndar er það algjörlega óviðunandi að miða við erlendar reglur, eins og stjórnvöld hafa gert í þessu máli, þegar í hlut eiga svo hættuleg mengunarefni. Íslenskt veðurfar, jarðvegur og lífríki er á margan hátt einstakt og því er nauðsynleg að rannsaka hvernig umhverfið bregst við PAH-mengun áður en settar verða viðmiðunarreglur fyrir Ísland. Fram að því verður náttúran að njóta vafans og ekki er ráðlegt að heimila framkvæmdir og starfsemi sem valdið getur PHA-mengun þar til að þetta liggur fyrir.

Umhverfisráðuneytið fellst ekki á framangreind sjónarmið stjórnar Landverndar. Ráðuneytið telur óvissu vera óverulega og ekki verulegar líkur að PAH-mengun frá verksmiðjunni verði umtalsverð. Ráðuneytið staðfestir því úrskurð Skipulagsstofnunar.

Þetta mál verður tekið fyrir á fundi stjórnar Landverndar 7. apríl n.k.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd